Anne Boleyn

Drottning Englands og önnur eiginkona Hinriks 8. (1501-1536)
(Endurbeint frá Anna Boleyn)

Anne Boleyn (150119. maí 1536) var drottning Englands frá árinu 1533 til 1536 sem önnur eiginkona Hinriks 8. Englandskonungs og markgreifynja af Pembroke að auki.[1] Hjónaband hennar við Hinrik og aftaka hennar gerðu hana að lykilpersónu í pólitískum og trúarlegum átökum sem hrundu af stað ensku siðaskiptunum. Dóttir hennar, Elísabet, átti eftir að setjast á valdastól eftir daga Hinriks sem Elísabet 1. Englandsdrottning.

Skjaldarmerki Boleyn-ætt Drottning Englands
Boleyn-ætt
Anne Boleyn
Anne Boleyn
Ríkisár 28. maí 153317. maí 1536
SkírnarnafnAnne Boleyn
Fædd1501
 Blickling Hall, Norfolk eða Hever-kastala, Kent
Dáin19. maí 1536
 Lundúnaturni, Lundúnum
GröfKirkju heilags Péturs í hlekkjum, Lundúnaturni, Lundúnum
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Thomas Boleyn, jarl af Wiltshire
Móðir Lafði Elizabeth Howard
KonungurHinrik 8.
BörnElísabet 1.

Æviágrip breyta

Anne var dóttir Thomas Boleyn jarls af Wiltshire, og eiginkonu hans, Elizabeth Boleyn greifynju af Wiltshire. Hún var menntuð í Hollandi og Frakklandi, aðallega sem þerna fyrir Claude Frakkaprinsessu. Anne sneri aftur til Englands árið 1522 til að giftast írskum frænda sínum, James Butler jarli af Ormond. Wolsey kardínáli lét aflýsa brúðkaupi þeirra og Anne varð þess í stað heiðursþerna eiginkonu Hinriks 8., Katrínar af Aragóníu.

Snemma árið 1523 var Anne leynilega trúlofuð Henry Percy, syni jarlsins af Norðymbralandi en Wolsey kardináli lét einnig ógilda þá trúlofun í janúar 1524 og Anne var send heim til Heverkastala. Í febrúar/mars árið 1526 fór Hinrik 8. að gera hosur sínar grænar fyrir Anne. Hún stóðst daður hans og neitaði að verða frilla hans – líkt og systir hennar, María, hafði verið. Brátt varð Hinrik gagntekinn af því að ógilda hjónaband sitt við Katrínu drottningu til þess að geta gifst Anne. Þegar ljóst varð að Klemens 7. páfi væri ófáanlegur til að ógilda hjónabandið hófst upplausn kaþólsks valds í Englandi. Árið 1532 gerði Hinrik Anne að markgreifynju Pembroke.

Hinrik og Anne giftust þann 25. janúar 1533 eftir leynilegt brúðkaup þann 14. nóvember 1532. Þann 23. maí 1533 lýsti hinn nýi erkibiskup Kantaraborgar, Thomas Cranmer, því yfir að hjónaband Hinriks og Katrínar væri ógilt; fimm dögum síðar löggilti hann hjónaband Hinriks og Anne. Stuttu síðar lét páfinn bannfæra bæði Hinrik og Cranmer. Vegna hjónabandsins og bannfæringanna klofnaði enska biskupakirkjan frá rómversk-kaþólsku kirkjunni og enska biskupakirkjan var færð undir yfirvald konungsins. Anne var krýnd Englandsdrottning þann 1. júní 1533. Þann 7. september fæddi hún dótturina Elísabetu sem síðar átti eftir að verða Elísabet 1. Englandsdrottning. Hinrik varð fyrir vonbrigðum um að hann skyldi hafa eignast dóttur en ekki son en vonaðist til að sonur kæmi næst og lýsti því yfir að hann elskaði Elísabet. Anne átti eftir að verða fyrir þremur fósturlátum og í mars 1536 var Hinrik farinn að stíga í væng við Jane Seymour. Til þess að geta kvænst Jane Seymour varð Hinrik að finna sér tylliástæðu til að binda enda á hjónaband sitt við Anne.

Hinrik hélt Anne grunaðri fyrir landráð í apríl árið 1536. Þann 2. maí var hún handtekinn og látin dúsa í Lundúnaturni þar sem ýmsir kunningjar hennar – þ.á.m. fyrrverandi unnusti hennar, Henry Percy, og frændi hennar, Thomas Howard – réttuðu yfir henni og lýstu yfir sekt hennar þann 15. maí. Hún var hálshöggvin fjórum dögum síðar. Nútímasagnfræðingar telja ásakanirnar gegn henni, m.a. um framhjáhald, sifjaspell og áætlanir um að koma konungnum fyrir kattarnef, illa rökstuddar og ósannfærandi. Stundum er því haldið fram að Anne hafi verið sökuð um að vera norn en á þetta er ekki minnst í ákærunum.[2][3]

Eftir að Elísabet dóttir hennar var krýnd drottning var Anne endurmetin sem píslarvottur og hetja ensku siðaskiptanna, sérstaklega í verkum Johns Foxe.[4] Í gegn um aldirnar hefur hún birst eða verið getið í fjölmörgum listaverkum og skáldsögum. Hennar er minnst sem „áhrifamesta og mikilvægasta maka einvalds í sögu Englands“[5] því það var hennar vegna sem Hinrik 8. lét ógilda hjónaband þeirra Katrínar af Aragóníu og lýsti yfir sjálfstæði frá Páfagarði.

Tilvísanir breyta

  1. Ives, Eric The Life and Death of Anne Boleyn (2004), bls.158–59, bls.388.
  2. Gairdner, James. Letters and Papers, Foreign and Domestic, Henry VIII, Volume 10 Janúar–júní 1536. Her Majesty's Stationery Office. Bls. 349–371.
  3. Wriothesley, Charles. A Chronicle of England During the Reigns of the Tudors, From A.D. 1485 to 1559, 1. bindi. (1875) Camden Society. Bls. 189–226
  4. „Review: The Life and Death of Anne Boleyn“. Copperfieldreview.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. nóvember 2010. Sótt 26. apríl 2010.
  5. Ives, bls. xv.