Alli Kalli (franska: Achille Talon) er heiti á teiknimyndasagnaflokki eftir belgíska listamanninn Greg. Sögurnar birtust fyrst í teiknimyndablaðinu Pilote árið 1963. Fyrsta Alla Kalla-bókin kom út árið 1966 og fylgdu nærri fimmtíu bækur í kjölfarið. Greg dó árið 1999, en eftir dauða hans hafa komið út fáeinar bækur eftir aðra listamenn.

Sögurnar

breyta

Titilpersónan Alli Kalli er feitlaginn, stórnefjaður og sjálfumglaður borgari í óskilgreindri franskri eða belgískri borg. Hann er ákaflega hégómlegur og telur sig mikinn leiðtoga og menningarfrömuð.

Alli Kalli á í stöðugum erjum við nágranna sinn, meðalmennið Farald (franska: Hilarion Lefuneste). Faðir Alla Kalla kemur sömuleiðis nokkuð við sögu, en hann hefur ekki áhuga á öðru í lífinu en að þamba bjór. Áfengisneysla er raunar nokkuð áberandi í sögunum, enda markhópurinn ekki allra yngstu lesendurnir.

Alla Kalla-bækurnar skiptast í tvennt. Sumar hafa að geyma sögur í fullri lengd, en algengara er þó að um sé að ræða safn af stuttum skrítlum upp á eina eða tvær blaðsíður.

Önnur útgáfa

breyta

Vinsældir Alla Kalla í Pilote teiknimyndablaðinu urðu til þess að árið 1975 var hafin útgáfa sérstaks teiknimyndablaðs sem bar nafn hans. Úgáfu þess var þó hætt að einu ári liðnu.

Á tíunda áratug síðustu aldar voru gerðar teiknimyndir fyrir sjónvarp um ævintýri Alla Kalla. Þær voru talsvert frábrugðnar efni bókanna, þar sem aðalpersónan var sett í hlutverk frægra manna úr mannkyns- og bókmenntasögunni og vann yfirleitt frægan sigur þrátt fyrir klaufsku og aulahátt. Sjónvarpspersónan hlaut nafnið Walter Mellon í enskumælandi löndum.

Íslensk útgáfa

breyta

Árið 1980 gaf Fjölva-útgáfan út Alla Kalla í eldlínunni. Þýðandi hennar var Þorsteinn Thorarensen. Á frummálinu nefndist hún Achille Talon au coin du feu og var frá árinu 1975.