Alexanders saga
Alexanders saga er forn íslensk saga um Alexander mikla, þýðing á söguljóði sem franska skáldið Philippus Gualterus orti á latínu um 1180. Alexanders saga er þýðing á söguljóðinu Alexandreis, sem er kallað Alexanderskviða á íslensku. Halldór Laxness stuðlaði að því að hún kæmi fyrir almenningssjónir um miðjan fimmta áratug 20. aldar, enda mikill aðdáandi verksins.
Um söguna
breytaAlmennt er talið að Brandur Jónsson biskup á Hólum 1263–1264 hafi þýtt Alexanderskviðu á íslensku, og má þar t.d. vísa til eftirmála Gyðinga sögu þar sem sagt er að Brandur hafi þýtt söguna. Brandur fékkst talsvert við kennslu, og var Alexanderskviða vinsælt kennsluefni í latínu á miðöldum. Talið er hugsanlegt að Brandur hafi þýtt söguna samhliða kennslunni, svipað og Sveinbjörn Egilsson gerði með Hómerskviður. Brandur tekur verk sitt sjálfstæðum tökum. Hann umritar söguljóð yfir í laust mál, sleppir formála frumritsins, einnig efniságripi í upphafi hverrar bókar o.fl. Einnig styttir hann þar sem ljóðmælandinn gerist langorður.
Öllum sem um Alexanders sögu hafa fjallað ber saman um að hún sé afrek að máli og stíl. Árni Magnússon hreifst af málfarinu í sögunni og undirbjó útgáfu, en þau gögn brunnu í Kaupmannahöfn 1728. Einnig er til fullbúið prentsmiðjuhandrit, sem ætlað var til útgáfu í Hrappsey 1784, en hætt var við útgáfuna vegna Móðuharðindanna. Halldór Laxness hreifst svo af verkinu að hann beitti sér fyrir því að Alexanders saga var gefin út árið 1945 í alþýðlegri útgáfu. Í formála bókarinnar segir Halldór:
- „Hverjum manni sem ritar á íslensku, jafnvel á vorum dögum, ætti að verða til eftirdæmis sá hreinleiki og tignarbragur norræns máls, sem hér birtist í samhæfingu við erlent efni. Af þeim vitra og lærða manni, sem bókina þýddi, geta Íslendingar allra tíma lært fleira en eitt um það, hvernig útlenda hluti skal um ganga á Íslandi.“
Handrit Alexanders sögu
breytaSagan er varðveitt í nokkrum handritum, sem hafa hana í tveimur gerðum, A (lengri gerð) og B (styttri gerð):
- AM 519 4to, aðalhandrit A-flokksins, ritað um 1300, í það vantar 2 blöð. Árni Magnússon keypti handritið í Björgvin árið 1690, en það er þó íslenskt. Það var gefið út ljósprentað 1966, og ritaði Jón Helgason ítarlegan inngang.
- AM 226 fol., aðalhandrit B-flokksins, talið ritað í Helgafellsklaustri 1350-1370, og er sagan þar heil.
- AM 225 fol., er eftirrit AM 226 frá því um 1400.
- AM 655 XXIX 4to, brot úr handriti frá því um 1300, 4 blöð.
- Perg 4to no. 24, brot úr handriti frá 15. öld, 22 blöð.
Í B-flokknum er texti sögunnar talsvert styttur, en söguþræðinum þó haldið að fullu. Í AM 226 fol. er skotið inn í söguna íslenskri þýðingu á bréfi Alexanders mikla til Aristótelesar um undur Indlands. Þetta bréf er aftan við söguna í síðasttalda handritinu.
Alexanders saga útgefin
breytaAlexanders saga hefur fjórum sinnum verið gefin út.:
- Alexanders saga, Carl Richard Unger gaf út, Christiania 1848.
- Alexanders saga, Finnur Jónsson gaf út, Kaupmannahöfn 1925.
- Alexandreis, það er Alexanders saga mikla, Halldór Kiljan Laxness átti frumkvæði að útgáfunni, Reykjavík 1945.
- Alexandreis, það er Alexanders saga á íslensku, Gunnlaugur Ingólfsson bjó til prentunar, Reykjavík 2002.
Heimildir
breyta- Ofangreindar útgáfur sögunnar.
Tenglar
breyta- Alexanders saga pdf [1][óvirkur tengill]