Gyðinga saga er forníslensk saga um sögu Gyðinga frá dögum Alexanders mikla og fram yfir dauða Jesú Krists.

Gyðinga saga er varðveitt heil í tveimur skinnhandritum:

  • AM 226 fol., kallað (A), talið ritað í Helgafellsklaustri 1350-1370.
  • AM 225 fol., kallað (a), er eftirrit AM 226 frá því um 1400.

Í báðum þessum handritum kemur sagan í beinu framhaldi af Alexanders sögu. Einnig eru til brot úr þremur skinnhandritum:

  • AM 655 4to XXV, kallað (B), eitt blað frá fyrri hluta 14. aldar.
  • AM 238 fol. XVII, kallað (C), tvö blöð frá upphafi 14. aldar.
  • AM 229 fol. XVII, kallað (D), tvö blöð frá þriðja fjórðungi 14. aldar.

Loks er sagan varðveitt heil eða í brotum í sextán pappírshandritum, þar af hafa þrjú textagildi.

Texti allra handritanna er runninn frá sömu norrænu þýðingunni, en greina verður á milli tveggja gerða sögunnar: Lengri gerðar, í handritunum B og C, og styttri gerðar í hinum handritunum.

Við lok Gyðinga sögu í A stendur þetta:

„Þessa bók færði heinn heilagi Jerónímus prestur úr hebresku máli og í latínu. En úr latínu og í norrænu sneri Brandur prestur Jónsson, er síðan var biskup að Hólum, og svo Alexandro magno eftir boði virðulegs herra, herra Magnúsar konungs, sonar Hákonar konungs gamla.“

Af þessu má ráða að Brandur Jónsson, síðar biskup á Hólum, hafi samið Gyðinga sögu, og þá líklega sem framhald af Alexanders sögu. Óvíst er hvenær Brandur samdi söguna. Magnús lagabætir varð konungur 1257 og var krýndur 1261, og hafa því sumir talið söguna ritaða eftir 1257, eða jafnvel veturinn 1262-1263, þegar Brandur dvaldist í Noregi. Ekki er þó hægt að útiloka að sagan sé eldri.

Gyðinga saga er samsteypa unnin upp úr mörgum heimildum. Fyrsti hlutinn, kaflar I-XXI, er aðallega þýðing eða endursögn á Fyrri Makkabeabók, sem er meðal apókrýfra rita Gamla testamentisins, en þó virðist þýðandinn einnig hafa stuðst við latneska Gyðinga sögu, Antiquitates Judaicae, eftir Flavíus Josephus. Annar hlutinn, kaflar XXI-XXXII, er aðallega úr Historia Scholastica eftir Pétur Comestor. Þriðji hlutinn, kaflar XXXIII-XXXVIII, er saga Pontíusar Pílatusar og Júdasar Ískaríots, unnin upp úr Historia apocrypha. Síðasti kaflinn, XXXIX, er úr ýmsum heimildum, m.a. Historia Scholastica, og rekur sögu Gyðinga til ársins 44 e.Kr.

Sumir fræðimenn, sem rannsakað hafa stíl sögunnar, hafa reynt að færa rök fyrir því að fleiri en einn þýðandi hafi komið að verkinu. Þannig hélt Gustav Storm því fram að Brandur Jónsson hefði aðeins þýtt fyrsta hlutann. Nýjustu rannsóknir benda þó til að sú tilgáta standist ekki, að ekkert mæli gegn því að sagan sé verk eins manns.

Gyðinga saga er athyglisverð fyrir það að hún er með elstu tilraunum til að þýða einstök rit Biblíunnar á íslensku. Nokkur hluti biblíunnar er til í fornri íslenskri þýðingu, í safnriti sem kallast Stjórn.

Gyðinga saga var fyrst gefin út árið 1881, af Guðmundi Þorlákssyni, sem 6. bindi í ritröð Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur. Árið 1995 gaf Stofnun Árna Magnússonar söguna út í nýrri fræðilegri útgáfu, sem Kirsten Wolf sá um.

Tenglar

breyta

http://www.am.hi.is/utgafa/ritArnastofnunar/gydingaSaga.php?fl=4 Geymt 17 janúar 2006 í Wayback Machine

Heimildir

breyta
  • Kirsten Wolf (útg.): Gyðinga saga, (Stofnun Árna Magnússonar, Rvík 1995).