Jarðefnafræði
Jarðefnafræði er sú fræðigrein er fæst við efnafræðilega samsetningu jarðar og annarra reikistjarna, efnafræðilegra ferla og hvarfa sem ráða myndun bergs og jarðvegs, hringrása efna og orku sem flytja til efnasambönd jarðar í tíma og rúmi, og gagnverkun þeirra við vatnshvel og andrúmsloft.
Helstu undirgreinar jarðefnafræðinnar eru:
- Jarðefnafræði samsætna: Ákvörðun afstæðs og raunverulegs magns frumefna og samsætna þeirra í jörðinni og á yfirborði jarðar.
- Rannsóknir á dreifingu og hreyfingu frumefna í mismunandi hlutum jarðar (skorpu, möttli, vatnshveli o.s.frv.) og í steindum, með það markmiði að lýsa undirliggjandi dreifi- og hreyfikerfum.
- Geimefnafræði: Greining á dreifingu frumefna og samsætna þeirra í geimnum.
- Lífræn jarðefnafræði: Rannsóknir á hlutverkum ferla og efnasambanda sem eiga uppruna í lifandi eða dauðum lífverum.
- Beiting jarðefnafræði í umhverfis-, grunnvatns- og steindafræðum.
Victor Goldschmidt er af flestum talinn vera faðir nútímajarðefnafræði. Hann útfærði helstu hugmyndir fræðigreinarinnar í röð verka sem byrjuðu að koma út árið 1922 undir heitinu Geochemische Verteilungsgesetze der Elemente.