Abú Bakr
Abú Bakr (27. október 573 – 23. ágúst 634) var vinur, ráðgjafi og tengdafaðir Múhameðs spámanns, upphafsmanns íslamstrúar. Abú Bakr var einn af þeim fyrstu sem snerust til íslamstrúar og varð síðar fyrstur „réttleiddu kalífanna“ fjögurra sem réðu yfir fyrsta stórveldi múslima eftir andlát Múhameðs. Kalífatíð Abú Bakrs var stutt, en á þeim tíma hófu múslimar stórtæka landvinninga og unnu hernaðarsigra gegn tveimur stærstu veldum þessa tíma, Býsansríkinu og Sassanídaveldinu.
| ||||
Abú Bakr
أَبُو بَكْرٍ | ||||
Ríkisár | 8. júní 632 – 23. ágúst 634 | |||
Skírnarnafn | Abú Bakr Abdúlla ibn Ósman Abú Quhafa | |||
Fæddur | 27. október 573 | |||
Mekka, Hejaz, Arabíu | ||||
Dáinn | 23. ágúst 634 (60 ára) | |||
Medína, Hejaz, Rasídunveldinu | ||||
Gröf | Moska spámannsins, Medína | |||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Uthman Abu Quhafa | |||
Móðir | Salma Umm al-Khair | |||
Eiginkonur | Qutaylah bint Abd-al-Uzza (skilin) Umm Rumān Asma bint Umais Habibah bint Kharijah | |||
Börn | 6 |
Skiptar skoðanir eru um Abú Bakr eftir trúardeildum múslima. Hann er dáður meðal súnníta en sjítar líta á hann sem valdaræningja sem hrifsaði til sín völd frá útvöldum eftirmanni Múhameðs, Alí.
Æviágrip
breytaAbú Bakr fæddist árið 573 í Mekka og var kominn af auðugri kaupmannsfjölskyldu úr arabíska Kúreisj-ættbálknum. Hann hlaut ungur mikinn áhuga á kameldýrum vegna samskipta sinna við Bedúína. Nafnið Abú Bakr var dregið af dálæti hans á kameldýrunum, en nafnið merkti upphaflega „faðir eða verndari afkvæmis kameldýrs“. Múhameð gaf nafni vinar síns síðar merkinguna „sá er guð bjargaði frá logum vítis“.[1]
Abú Bakr tók þátt í kaupmennsku fjölskyldu sinnar og varð auðugur á verslun með vefnaðarvörur. Hann varð brátt höfðingi ættbálks síns þótt faðir hans væri enn á lífi. Þegar Abú Bakr sneri heim úr verslunarferð einni frétti hann að Múhameð, sem hann hafði þekkt frá barnæsku, hefði lýst sig spámann nýrra trúarbragða, íslams. Abú Bakr varð fljótt hrifinn af nýju trúnni og varð einn hinna fyrstu utan fjölskyldu Múhameðs sem snerust til íslamstrúar. Þar sem Abú Bakr var vinsæll og áhrifamikill fylgdu margir Kúreisj-arabar fordæmi hans, meðal annars mestöll fjölskylda hans, vinir hans og fjölmargir þrælar sem hann ku hafa keypt í því skyni að frelsa þá.[1] Margir aðrir voru þó andsnúnir útbreiðslu nýju trúarinnar og því einkenndust upphafsár íslams á Arabíuskaga af vopnuðum átökum milli múslima og heiðinna Araba. Abú Bakr var förunautur og ráðgjafi Múhameðs í þessum átökum, sem leiddu til þess að múslimar náðu að endingu yfirtökum í Arabíu.[1]
Múhameð lést árið 632 eftir veikindi. Sagt er að Abú Bakr hafi verið viðstaddur þegar mannfjöldi safnaðist saman til að syrgja spámanninn og hafi kysst og blessað lík hans. Mikil óvissa spratt upp um hver eftirmaður Múhameðs sem leiðtogi múslima ætti að vera og deilt var um hvort það ætti að vera Abú Bakr, sem hafði verið ráðgjafi Múhameðs og trúnaðarvinur hans, eða Alí ibn Abu Talib, tengdasonur Múhameðs sem margir töldu að Múhameð hefði í reynd útnefnt sem eftirmann sinn.[1] Svo fór að endingu að Abú Bakr varð fyrir valinu og varð fyrsti kalífi íslamstrúar. Það átti hann meðal að þakka Ómari ibn al-Khattab, sem hafði útnefnt Abú Bakr og beitt sannfæringarkrafti sínum til að auka fylgi við hann.[2] Alí féllst með semingi á valdatöku Abú Bakrs.[3]
Abú Bakr var aðeins kalífi í rúm tvö ár, frá 632 til 634. Sá tími var þó mikill umbrotatími í sögu íslams og einkenndist af hernaði múslima út fyrir Arabíuskaga. Kalífadæmið háði stríð gegn tveimur voldugustu ríkjum þessa tíma, Býsansríkinu og Sassanídaveldinu, og tókst að auka verulega við yfirráðasvæði sitt á kostnað þeirra.[2]
Abú Bakr lést úr veikindum árið 634 en hann hafði þá útnefnt Ómar sem eftirmann sinn. Ómar tók því við sem annar kalífi Rasídunveldisins í samræmi við óskir Abú Bakrs. Abú Bakr var þekktur fyrir að vera eini kalífinn í sögu íslams sem endurgreiddi alla fjármuni sem hann þénaði á valdatíð sinni.[2]
Skiptar skoðanir múslima um Abú Bakr
breytaDeilan um það hver eftirmaður Múhameðs hefði átt að vera er helsta orsökin fyrir klofnun íslamstrúar í trúardeildirnar súnní og sjía. Súnnítar líta svo á að valdataka Abú Bakrs og eftirmanna hans, Ómars og Ósmans, hafi verið réttmæt og líta á þá sem fyrstu þrjá „réttlátu kalífana“. Sjítar líta hins vegar svo á að Abú Bakr hafi með óréttmætum hætti hrifsað til sín völd frá réttmætum arftaka Múhameðs, Alí ibn Abu Talib.[4] Alí varð síðar fjórði kalífi Rasídunveldisins en þá var of seint að vinna bug á sundrungunni sem þessi deila hafði ollið meðal múslima.[3]
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 Daníel Freyr Birkisson; Guðjón Bjartur Benediktsson (10. mars 2017). „Hver var Abu Bakr og hvaða áhrif hafði hann á íslam?“. Vísindavefurinn. Sótt 28. mars 2024.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 Andri Már Hermannsson; Arnþór Daði Guðmundsson; Bjarki Kolbeinsson; Ólöf Rún Gunnarsdóttir (17. mars 2017). „Hverjir voru helstu leiðtogar íslams strax eftir dauða Múhameðs?“. Vísindavefurinn. Sótt 28. mars 2024.
- ↑ 3,0 3,1 Jóhanna Kristjónsdóttir (23. nóvember 1996). „Rangtúlkaðar kenningar“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 14.
- ↑ Haraldur Ólafsson (7. nóvember 2002). „Hver er munurinn á súnnítum og sjíta-múslimum?“. Vísindavefurinn. Sótt 28. mars 2024.
Fyrirrennari: Fyrstur í embætti |
|
Eftirmaður: Ómar |