Tupac Shakur

bandarískur rappari (1971-1996)
(Endurbeint frá 2Pac)

Tupac Amaru Shakur (fæddur 16. júní 1971, dáinn 13. september 1996), einnig þekktur sem 2Pac, Pac og Makaveli, var bandarískur rappari. Tupac var einn farsælasti tónlistarmaður heims á 10. áratugnum og fjölluðu textar hans meðal annars um félagslegt óréttlæti, jaðarsetningu svarts fólks og stjórnmálaástand í Bandaríkjunum.[1][2]

Tupac Shakur árið 1996.

Æviágrip

breyta

Tupac fæddist í Brooklyn, New York 16. júní 1971 og hlaut nafnið Lesane Parish Crooks. Þegar hann var árs gamall breytti móðir hans, Afeni Shakur, nafni hans í Tupac Amaru Shakur, eftir byltingarleiðtoga Inca Túpac Amaru II. Afeni Shakur var meðlimur í Svörtu hlébörðunum og hafði verið handtekin fyrir að skipuleggja sprengjuárásir. Hún átti yfir höfði sér allt að 300 ára fangelsisdóm en var sýknuð aðeins mánuði fyrir fæðingu Tupac.[2]

Tupac ólst upp í mikilli fátækt í New York. Hann þurfti, ásamt móður sinni og systur sinni, Sekyiwa, að flakka á milli fátækrahverfa og gistiskýla fyrir heimilislausa og átti því fáa vini. Hann tók þá til við að semja ljóð og halda dagbækur til að hafa ofan af fyrir sér. Tólf ára að aldri gekk Tupac í leiklistarhóp í Harlem og tók að sér hlutverk Travis í leikritinu A Raisin in the Sun.[heimild vantar]

Árið 1986 flutti hann ásamt fjölskyldu sinni til Baltimore í Maryland, þar sem hann gekk í virtan listnámsskóla, Baltimore School for the Arts. Kennarar töldu hann hæfleikaríkann námsmann og skapandi. Þar lærði hann ballett, ljóðlist, djass, Shakespeare, leiklist og ýmsar fræðigreinar. Fjölskyldan flutti til Marin City í Kaliforníu áður en honum tókst að útskrifast. Í Marin City fór Tupac að selja fíkniefni, taka þátt í starfsemi og menningu gengja.[2][3]

Tónlistarferill

breyta

Í Baltimore hóf Tupac einnig að semja og flytja rapptónlist undir nafninu MC New York. Þegar til Kaliforníu kom lenti Tupac í slæmum félagsskap. Hann fór að selja fíkniefni og komst í alls kyns vandræði en á sama tíma eignaðist hann félaga sem vöktu áhuga hans á rappi. Hann stofnaði rapphljómsveitina Strictly Dope, ásamt Ray Luv og DJ Dize (upptökur þeirra voru síðar gefnar út sem The Lost Tapes árið 2001). Skömmu síðar gekk hann í aðra rapphljómsveit, Digital Underground, og með þeim kom hann fram á hljómplötu í fyrsta sinn.[heimild vantar]

Árið 1991 fékk Tupac tækifæri til að leika í kvikmynd þegar honum var boðið hlutverk í Juice. Hann hlaut góða dóma fyrir leik sinn í myndinni.[heimild vantar]

Í nóvember 1991 gaf Tupac svo út sína fyrstu sólóplötu, 2Pacalypse Now og náði strax vinsældum, þó ekki eins miklum og Tupac hafði vonast til, þar sem lög hans komust ekki í efsta sæti á vinsældarlistum. Platan var harðlega gagnrýnd af sumum og var sögð hvetja til ofbeldis.[heimild vantar]

Tupac gaf út aðra plötu sína, Strictly 4 My N.I.G.G.A.Z., í febrúar 1993. Á plötunni naut hann hjálpar Shock G við útfærslu laga, þar sem það var ekki hin sterka hlið Tupac. Platan náði mun meiri vinsældum en sú fyrsta, seldist í milljónum eintaka og tvö lög af henni komust í efsta sæti á vinsældarlistum.[heimild vantar]

Á sama tíma komst Tupac í kast við lögin í auknum mæli. Í október 1991 var hann stöðvaður af tveimur lögregluþjónum fyrir að fara ólöglega yfir götu. Eftir að hann sagði þeim að fara til fjandans réðust þeir á hann og börðu hann illa. Tupac fór í mál við ríkið og fékk 42.000 dollara í skaðabætur. Tveimur árum síðar kom hann að tveimur lögregluþjónum sem voru að áreita blökkumann og lenti í slagsmálum við þá og skaut þá og særði. Síðar kom þó í ljós að lögregluþjónarnir voru undir áhrifum og með skotvopn sem hafði verið stolið úr sönnunargagnageymslu á sér, og því voru kærur gegn Tupac lagðar niður.[heimild vantar]

Árið 1994 stofnaði Tupac rapphljómsveitina Thug Life, sem gaf út plötuna Thug Life: Thug Life Vol. 1 við litla athygli.[heimild vantar]

Í desember sama ár var Tupac kærður fyrir kynferðisbrot og í ársbyrjun 1995 var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi, þrátt fyrir skort á sönnunargögnum og að neita allri sök.[heimild vantar]

Aðeins nokkrum klukkustundum fyrir dómsúrskurðinn var ráðist á Tupac, hann rændur og skotinn fimm sinnum, m.a. í höfuðið. Hann lifði árásina af og var fluttur á sjúkrahús, þar sem hann gekk undir aðgerð. Aðeins nokkrum klukkustundum eftir aðgerðina útskrifaði hann sig sjálfur af spítalanum og mætti til að heyra dómsuppskurðinn í kynferðisbrotsmálinu.[heimild vantar]

Hann hóf afplánun í febrúar 1995 og skömmu síðar kom plata út hans, Me Against The World. Platan náði gríðarlegum vinsældum og seldist í milljónum eintaka. Tupac er eini tónlistarmaður sögunnar sem hefur komist í efsta sæti vinsældalista á meðan í afplánun.[heimild vantar]

Á meðan hann var í fangelsi giftist hann langtímakærustu sinni, Keisha Morris. Hann stytti sér stundir með að lesa verk Niccolò Machiavelli og samdi sjónvarpsleikritið Live 2 Tell.[heimild vantar]

Eftir átta mánaða fangelsisvist var Tupac sleppt á skilorði eftir að Suge Knight, yfirmaður hljómplötuútgefandans Death Row Records borgaði 1,4 milljón dollara tryggingu fyrir Tupac, gegn því að hann skrifaði undir þriggja plötu samning við Death Row Records.[heimild vantar]

Eftir þetta varð Tupac enn andsnúnari lögunum og yfirvöldum en áður, að margra sögn vegna reiði yfir því að vera settur í fangelsi fyrir glæp sem hann neitaði alltaf að hafa framið.[heimild vantar]

Árið 1996 gaf hann út plötuna All Eyez on Me, sem var fyrsta tvöfalda hljómplata hans, og í raun fyrsta tvöfalda hljómplata af frumsömdu efni í sögu rapptónlistarinnar. Platan seldist í yfir níu milljónum eintaka og margir telja hana meðal bestu platna í sögu rapptónlistar.[heimild vantar]

Andlát

breyta

Að kvöldi 7. september 1996, var Tupac staddur í spilavíti í Las Vegas, þar sem hann hafði fylgst með hnefaleikakappanum Mike Tyson keppa.[3] Þar var hann ásamt Suge Knight, eiganda Death Row Records, þegar skotið var á bíl þeirra og lést Tupac sex dögum síðar af sárum sínum, þann 13. september aðeins 25 ára að aldri. Atvikið var talið vera afleiðing átaka milli rappara frá Austurströnd og Vesturströnd Bandaríkjanna.[3][2] Árið 2023 var gengjaforinginn Duane Davis ákærður fyrir morðið.[4]

Tveimur mánuðum eftir morðið kom út platan Makaveli: The Don Killuminati: 7 Day Theory, sem Tupac hafði tekið upp rétt fyrir dauða sinn. Á plötunni var dauða hans spáð í mörgum lögum og efni plötunnar var að öllu leyti þungt og dimmt yfir því. Platan var sögð hafa verið unnin á aðeins sjö dögum og eitt vinsælasta lag hennar, Hail Mary, tekið upp á hálftíma. Platan seldist í rúmlega fimm milljón eintökum og var uppspretta ýmissa kenninga um að Tupac væri enn á lífi.[heimild vantar]

Árið 1997 komu út kvikmyndirnar Gridlock'd og Gang Related, sem Tupac hafði leikið í skömmu fyrir dauða sinn. Sama ár kom einnig út ljóðabókin The Rose That Grew From Concrete, sem inniheldur ljóð sem Tupac samdi þegar hann var 18-19 ára.[heimild vantar]

Eftir dauða Tupacs hafa komið út fjölmargar plötur með áður óútkomnu efni hans. Einnig hefur verið gerð heimildarmynd um hann, Tupac: Resurrection, sem kom út í nóvember 2003.[heimild vantar]

Tupac er af mörgum talinn vera einn besti og áhrifamesti rappari allra tíma. [heimild vantar] Eitt er víst að hann hafði gífurleg áhrif á tónlistarheiminn og þá sérstaklega rapptónlist. Oft er sagt að þegar hlustað er á hvernig Tupac rappaði, er að hann rappaði djúpt úr maganum þ.e.a.s að hljóðið var framkallað með lofti úr maganum eins og oft er sagt. [heimild vantar]

Hljómplötur

breyta

Gefnar út eftir dauða Tupacs:

Kvikmyndir

breyta

Bækur

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Nast, Condé (10. febrúar 2022). „Tupac Was Always Political“. GQ (bandarísk enska). Sótt 12. maí 2024.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Bruck, Connie (29. júní 1997). „The Takedown of Tupac“. The New Yorker (bandarísk enska). ISSN 0028-792X. Sótt 12. maí 2024.
  3. 3,0 3,1 3,2 „Tupac Shakur | Biography, Songs, Albums, Movies, & Facts | Britannica“. www.britannica.com (enska). 1. maí 2024. Sótt 12. maí 2024.
  4. BBC News - Tupac Shakur: Duane Davis charged with 1996 murder of rapper BBC, sótt 1/10 2023
   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
   Þessi leikaragrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
   Þessi tónlistargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.