Skipting ríkisvaldsins

(Endurbeint frá Þrískipting ríkisvalds)

Kenningar um skiptingu ríkisvaldsins eru raktar til 18. aldar heimspekinga og fræðimanna upplýsingarinnar, einkum þeirra Montesquieus, sem setti fram hugmyndir sínar þess efnis í bók sinni Andi laganna, og Johns Locke. John Locke er þeirra eldri og kom upphaflega með hugmyndina sem Montesquieu fullkomnaði og breiddi út.[1]

Kenningin gerir ráð fyrir að ríkisvaldinu sé skipt í jafn réttháa þætti, oftast þrjá: löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Hver þáttur átti að takmarka og tempra hinn. Þetta átti að minnka líkur á ofríki og geðþóttastjórn. Óvíða er reglunni fylgt út í hörgul. Í löndum sem búa við þingræði velur í raun löggjafarsamkundan æðstu handhafa framkvæmdavalsins.[2]. Þrískipting ríkisvaldsins er grundvöllurinn að skiptingu lýðræðislegra stjórnskipana í 3 gerðir. Það eru forsetaræði, þingræði og forsetaþingfræði.

Flest lýðfrjáls ríki styðjast við þessa kenningu að mismiklu leyti þó.

Þættir ríkisvaldsins

breyta

Hlutverk einstakra þátta er því eftirfarandi: Löggjafarvald setur lög. Framkvæmdavald framkvæmir en þó aðeins það sem lög kveða á um. Dómstólar úrskurða í ágreiningsmálulm um lagaleg efni sem til þeirra er skotið. Þetta er mikilvægt. Framkvæmdavald hefur aðeins heimild til að framkvæma það sem lög segja til um og dómstólar eru bundnir við lög í dómum sínum og geta aðeins beitt valdi sínu í málum sem til þeirra er skotið þ.e. þeir geta ekki tekið upp mál að eigin frumkvæði.

Algengast er að lagafrumvörp sem ná fram að ganga í þingræðislöndum séu undan rifjum framkvæmdavaldsins komin. Sérhverjum þingmanni og ráðherra er heimilt að leggja fram frumvörp en fæst þingmannafrumvörp ná því að verða að lögum. Þingið getur komið skilaboðum um vilja sinn til framkvæmdavaldsins í formi þingsályktana. Slíkar samþykktir hafa ekki lagagildi þ.e. þær setja aðeins þrýsting á framkvæmdavaldið.

Dómstólar dæma eftir lögum í víðum skilningi og eingöngu eftir lögum.[3] Þeim væri t.d. óheimilt að fara að fyrirmælum framkvæmdavaldsins. Dómstólar dæma m.a. um embættistakmörk stjórnvalda, þ.e. hvort þau fara að lögum og hvort lög standist kröfur stjórnarskrár.

Stjórnskipan

breyta

Forsetaræði

breyta

Forsetaræði hefur í för með sér að framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið er kosið á aðgreindan hátt (e.seperately elected) og báðar greinar ríkisvaldsins draga vald öðlast vald sitt því beint frá almenningi. Hvor greinin um sig er kosinn til ákveðins tímabil og hvorug greinin getur komið hinni frá völdum með eðlilegum hætti. Í forsetaræði býr löggjafarvaldið yfir valdi til að samþykkja fjárlög og annað er varðar fjárreiður ríkisins og því verða greinarnar til að vinna saman. Einnig vegna þess að forsetinn hefur yfirleitt allskonar völd er varða stefnumótun og ráðningar. Stundum hefur forsetinn rétt til að neita löggjöf eða móta stefnu með forsetatilskipun ( undir tilteknum kringumstæðum). Grundvallaratriðið er samt í forstaræði að þó greinarnar tvær, framkvæmdar og löggjafarþingið ( og svo auðvitað dómsvaldið sem er sjálfstætt) séu alveg aðgreindar verða þær að vinna saman til að móta stefnu. T.d. er framkvæmdarvaldið ábyrgt fyrir að undirbúa fjárlagagerð og getur gert tillögur að löggjöf en þingið verður að samþykkja. Það er kallað skipt ríkisstjórn eða divided government þegar einn flokkur stjórnar löggjafarvaldinu en annar flokkur er sá sem forsetinn tilheyrir. Í forsetaræði er afmarkað kjörtímabil.[4]

Þingræði

breyta

Þingræði hefur í för með sér að framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið er mun háðara hvoru öðru. Einungis löggjafarvaldið er kosið beinni kosningu en ríkisstjórnin þiggja svo umboð sitt frá þinginu. Oftast hefur hvor grein ríkisvaldsins afmarkað kjörtímabil, hægt er að fella ríkisstjórnina með vantraustsyfirlýsingu hvenær sem er og oftast þingið sömuleiðis. Þá má forsætisráðherrann kalla til kosninga nánast hvenær sem er ( oftast). Vald þingmeirihlutans til að viðhalda ríkisstjórninni gerir hana háða þinginu en vald forsætisráðherra til að leysa upp þingið gerir þingið háð ríkisstjórninni. Í þingræði eru tvær leiðir til að kjósa ríkisstjórnina frá. Í fyrsta lagi er hægt að samþykkja vantraustsyfirlýsingu sem kemur þá frá þinginu. Í öðru lagi getur þingið fellt traustsyfirlýsingu sem forsætisráðherrann sendir frá sér. Það hefur sýnt sig að flokksagi er almennt meiri í þingræðisríkjum. Í þingræðisríkjum er skilvirkni í stefnumótun almennt meiri en í forsetaræðisríkjum og vald þingsins er talsvert lítið í stefnumótun samanborið við ríkisstjórnina.[5]

Forsetaþingræði

breyta

Í forsetaþingræði er forsetinn og löggjafarþingið kosið á aðgreindan hátt rétt eins og í forsetaræðisríkjum en forsetinn hefur vald til að leysa upp þing. Í forsetaþingræði má forsetinn ráða ríkisstjórn eins og í forsetaræðisríkjum en verður að fá samþykki þingsins, eins og í þingræðisríkjum.  Það skiptir því miklu máli hvaða flokkur/ar ráða forsetaembættinu og löggjafarþinginu hverju sinni. Forsetaþingræði er þannig blönduð stjórnskipun sem hefur í för með sér að forysta framkvæmdarvaldsins er tvískipt, forsetinn fer með hluta framkvæmdarvaldsins en forsætisráðherrann og ríkisstjórn líka ( forsetinn skipar forsætisráðherrann). Mismunandi útfærslur af þessari tvískiptingu má finna meðal ríkja sem notast við þessa stjórnskipan.[6]

Skipting ríkisvaldsins á Íslandi

breyta

Ísland er lýðveldi. Þjóðhöfðinginn - forsetinn - er þjóðkjörinn til fjögura ára í senn. Vald forseta er lítið og verður helst virkt við stjórnarmyndanir.

Skv. stjórnarskrá fara forseti og Alþingi með löggjafarvaldið, forseti og ríkisstjórn með framkvæmdavaldið og dómstólar með dómsvaldið. Vald forseta er takmarkað og er aðallega táknrænt.

Á Íslandi er þingræði og takmarkast þrígreining valdsins hér eins og að ofan greinir.

Forsetinn er ábyrgðarlaus um störf sín og lætur stjórnvöld framkvæma vald sitt.

Þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrár þá voru dómstólar í héraði lítt sjálfstæðir á Íslandi fram til ársins 1989 - sjá lög um aðskilnað framkvæmdavalds og dómsvalds. Sýslumenn landsins voru í senn yfirmenn löggæslu og höfðu með höndum víðtækt framkvæmdavald, bæði fyrir ríki og sveitarfélög. Þeir voru jafnframt dómarar í héraði. Þessu var breytt með fyrrnefndum lögum og breytingu á öllum sérlögum um réttarfar. Hluti þeirra athafna sem áður töldust dómsathafnir, svo sem þinglýsingar, töldust eftir breytinguna framkvæmdavaldsgerðir, sem síðan má bera undir dómstóla.

Mörg dæmi eru um að dómstólar sinni sínu takmarkandi og temprandi hlutverki meðal annars með því að dæma að lög stangast á við stjórnarskrá og að stjórnvöld fari ekki að lögum.

Sem dæmi féll dómur þess efnis að inngrip stjórnvalda og Alþingis í launakjör dómara stæðist ekki vegna þess að slíkt skerti sjálfstæði þeirra. Slíkur dómur byggir á sjónarmiðum þrígreiningar ríkisvaldsins.

Tilvísanir

breyta
  1. Sjá K. Berling, Oplösningsretten (1906): 20.
  2. Sjá Ólf Jóhannesson, Lög og réttur (1975): 18.
  3. Ólafur Jóhannesson (1975): 35.
  4. G.Bingham Powell, Russel J Dalton og Kaare Strom,  „Government and Policymaking“ í Comparative Politics Today, 10. útg., ritstj. G.Bingham Powell, Russel J Dalton og Kaare Strom. (New York: Longman, 2012), 100-123.
  5. G.Bingham Powell, Russel J Dalton og Kaare Strom,  „Government and Policymaking“ í Comparative Politics Today, 10. útg., ritstj. G.Bingham Powell, Russel J Dalton og Kaare Strom. (New York: Longman, 2012), 100-123.
  6. G.Bingham Powell, Russel J Dalton og Kaare Strom,  „Government and Policymaking“ í Comparative Politics Today, 10. útg., ritstj. G.Bingham Powell, Russel J Dalton og Kaare Strom. (New York: Longman, 2012), 100-123.

Heimildir

breyta
  • Berling, K., Oplösningsretten (Kaupmannahöfn, 1906).
  • Ólafur Jóhannesson, Lög og réttur (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1975).