Þorvarður Helgason (príor)

Þorvarður Helgason (d. eftir 1532) var íslenskur prestur sem var í Vallanesi á Völlum frá því fyrir 1490 og síðan prestur á Skriðuklaustri. Hann varð svo príor í klaustrinu þegar Narfi Jónsson fluttist í Þykkvabæjarklaustur 1506.

Þorvarður hélt áfram að kaupa jarðir eins og Narfi hafði gert og auðgaði klaustrið töluvert. Árið 1514 gaf Valtýr Sigurðsson klaustrinu jörðina Hvanná á Jökuldal en hann hafði flúið í klaustrið ári áður og leitað þar griða eftir að hafa vegið mann. Sú tilgáta hefur komið fram að í þeim atburði sé kveikjan að þjóðsögunni um Valtý á grænni treyju. Árið 1524 bar það til að einn munkanna í klaustrinu gerði konu barn en Ögmundur biskup tók vægt á brotinu og skyldaði munkinn meðal annars til að kenna í klaustrinu, svo að einhvers konar skólahald hefur verið þar á dögum Þorvarðar.

Þorvarður lét af embætti árið 1530 og hefur þá verið orðinn aldurhniginn. Hann var áfram munkur í klaustrinu og var enn á lífi 1532. Jón Markússon tók við af honum.

Heimildir

breyta
  • „„Skriðuklaustur". Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „„Skriðuklaustur". Sunnudagsblað Tímans, 20. ágúst 1967“.