Þorkell Sigurbjörnsson
Þorkell Sigurbjörnsson (fæddur í Reykjavík 16. júlí 1938 - látinn í Kópavogi 30. janúar 2013) var íslenskt tónskáld.
Þorkell var sonur hjónanna Sigurbjörns Einarssonar biskups og Magneu Þorkelsdóttur biskupsfrúar og hannyrðakonu. Þorkell lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1957, hóf nám við Hamline háskólann í Minnesota og lauk mastersprófi frá háskólanum í Illinois í Bandaríkjunum 1961. Hann stjórnaði útvarpsþættinum Tónlist á atómöld hjá Ríkisútvarpinu auk fleiri útvarpsþátta um árabil. Hann er höfundur fjölda tónverka, þeirra þekktast er Heyr, himna smiður. Hann samdi einnig lagið Dúfa á brún fyrir skólakór Öldutúnsskóla. Þema 18. landsmóts barnakóra sem haldið var í Kópavogi dagana 19.- 21. apríl 2013 voru Þorkell og var lagið sungið undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur.
Þorkell var kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík í píanóleik, tónfræði og tónlistarsögu um áratugaskeið. Hann var formaður Tónskáldafélags Íslands 1983-1987, sat um tíma í stjórn Félags íslenskra tónlistarmanna og var forseti Bandalags íslenskra listamanna frá 1982-1986.[1]
Árið 1993 var Þorkell sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín á vettvangi tónlistar.
Tilvísanir
breyta- ↑ Ismus.is, „Þorkell Sigurbjörnsson“ (skoðað 24. júlí 2019)