Þjóðvarnarflokkur Íslands
Þjóðvarnarflokkur Íslands var stofnaður í Reykjavík 15. mars 1953. Var flokkurinn óbeint framhald af Þjóðvarnarfélaginu sem starfaði frá 1946 til 1951.
Fremsta baráttumál flokksins var að Ísland segði sig úr Atlantshafsbandalaginu og að bandaríski herinn hyrfi úr landi. Hugmyndafræði flokksins var byggð á þjóðernishyggju og félagshyggju og gagnrýndi meðal annars Sósíalistaflokkinn fyrir fylgni hans við Sovétríkin. Flokkurinn fékk tvo menn kjörna á Alþingi 1953, Gils Guðmundsson og Berg Sigurbjörnsson en missti bæði sætin í kosningunum 1956. Hann fékk hins vegar fulltrúa í sveitarstjórnum í Reykjavík og á Akureyri.
Við kosningarnar árið 1963 bauð Þjóðvarnarflokkurinn fram í samvinnu við Alþýðubandalagið og komst Gils Guðmundsson þá aftur á þing og sat þar til 1979. Þjóðvarnarflokkurinn hætti flokksstarfsemi árið 1963. Formaður var Valdimar Jóhannsson til 1960 og Bjarni Arason eftir það.
Flokkurinn gaf út vikublaðið Frjáls þjóð sem kom út 1952-1968, seinustu árin á vegum útgáfufélagsins Hugins.