Þjóðræðisflokkurinn
Þjóðræðisflokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur stofnaður þann 29. ágúst árið 1905. Kjarni hans var skipaður þingmönnum sem fylgdu Valtý Guðmundssyni að málum. Flokkurinn rann ásamt Landvarnarflokki inn í Sjálfstæðisflokkinn.
Saga
breytaVið lok sumarþings árið 1905 tilkynntu ellefu þingmenn um stofnun nýs stjórnmálaflokks, Þjóðræðisflokksins. Stofnun hans var innblásin af Bændafundinum fyrr í sama mánuði, þar sem stór hópur bænda, einkum af Suðurlandi, hélt til Reykjavíkur til að mótmæla stefnu stjórnarinnar í símamálinu. Flestir í nýja flokknum tilheyrðu stuðningssveit Valtýs Guðmundssonar og höfðu áður starfað undir merkjum Framsóknarflokksins. Ætlunin var að reyna að fylkja félögum úr Landvarnarflokki og öðrum stjórnarandstæðingum í hinn nýja flokk, en það gekk lítt eftir.
Auk Valtýs Guðmundssonar voru Jóhannes Jóhannessonn og Skúli Thoroddsen helstu forystumenn flokksins á þingi en ritstjórinn Björn Jónsson var mestur áhrifamaður utan þings og beitti blaði sínu Ísafold óspart. Önnur helstu stuðningsblöð flokksins voru Þjóðviljinn og Fjallkonan.
Þingflokkur Þjóðræðisflokksins klofnaði í afstöðunni til Uppkastsins árið 1908. Skúli Thoroddsen var harður andstæðingur þess og fylgdu flestir flokksmenn honum að málum. Flokkurinn tók þátt í kosningabandalagi með Landvarnarflokki í Alþingskosningunum 1908 undir merkjum Sjálfstæðisflokks og var sá flokkur formlega myndaður á Alþingi þann 14. febrúar 1909 og upp frá því tóku gömlu flokkarnir að renna í eitt undir hinu nýja heiti.
Tilvísanir og heimildir
breyta- Einar Laxness (1998, 2.útg.). Íslandssaga a-ö. Vaka-Helgafell. ISBN 9979-2-0295-5.