Þórunn Jónassen
Þórunn Jónassen (fædd 12. júní 1850 að Ketilsstöðum á Völlum í S-Múlasýslu, dáin 18. apríl 1922 í Reykjavík), einnig þekkt sem Þórunn Hafstein Pétursdóttir, var fyrsti formaður Thorvaldsensfélagsins og ein fjögurra kvenna sem árið 1908 urðu fyrstu konurnar í bæjarstjórn Reykjavíkur. Þórunn sat í bæjarstjórn árin 1908-1914. Árið 1921 hlaut Þórunn riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu, fyrst kvenna ásamt Elínu Briem.
Uppvöxtur og fjölskylda
breytaForeldrar Þórunnar voru Pétur Hafstein, sýslumaður og amtmaður, faðir Hannesar Hafstein, og fyrsta kona hans, Guðrún Hannesdóttir Stephensen. Þórunn missti móður sína er hún var aðeins 10 mánaða gömul og ólst upp til fermingjar ýmist hjá nákomnum ættingjum, eiginkonu Eggerts Jónssonar læknis á Akureyri, eða hjá föður sínum á Möðruvöllum í Hörgárdal þar sem faðir hennar var amtmaður.
Fjórtán ára gömul fór Þórunn til námsdvalar í Kaupmannahöfn og gekk meðal annars á skóla fröken Nathalie Zahle, en hann var í miklu áliti í Danmörku. Fröken Zahle var mikil kvenréttindakona sem vann að því að tengja saman menntun kvenna og réttindabaráttu þeirra. Frá Kaupmannahöfn kom Þórunn til Reykjavíkur og árið 1871, þá 21 árs gömul, og giftist hún Jónasi Jónassen, lækni við Sjúkrahúsið í Reykjavík. Jónas var settur landlæknir frá 1881–1882 en hann gegndi embættinu frá 1895 til 1906. Heimili þeirra var lengst af í Lækjargötu 8, á horni Skólabrúar og Lækjargötu og stendur það hús að mestu með sama sniði að ytra útliti. Hjónin eignuðust eina dóttur árið 1873, Soffíu.
Störf að félagsmálum og stjórnmálum
breytaÞórunn var kjörin fyrsti formaður Thorvaldsensfélagsins sem stofnað var árið 1875 og starfar enn í dag og er elsta félag kvenna í Reykjavík og með elstu kvenfélögum landsins. Tilgangur þess var m.a. að vinna að almenningsheill og styrkja þá er við erfiðleika búa. Þórunn var formaður félagsins til æviloka, eða í 47 ár. Þórunn átti hvað mestan þátt í því að gera Thorvaldsensfélagið að því sem það var. Í grein um sögu félagsins í Morgunblaðinu þann 19. nóvember 1925 um sögu félagsins var formennsku hennar lýst þannig:
- Með formensku sinni í Thorvaldsensfjelaginu gat hún sjer þess orðstýrs, er ekki deyr, á meðan að það f jelag lifir eða saga þess. Hún var þar elskuð og virt af öllum fjelagskonum. Þar unnu allir sem einn maður. Þar var aldrei ein höndin upp á móti annarri. Venjulegast var það svo, að það, sem hún vildi, var sjálfsagt; en þegar einhver uppástunga kom, sem fór í aðra átt, þá náði hún fram að ganga fyrir því. Hún kunni ekki að berjast með agitasjónum og ræðuhöldum, en var rjettsýn og friðelskandi, um leið og hún var viljaföst og gætin.[1]
Þórunn var stofnandi Húsmæðrjafélagsins og formaður þess til æviloka. Hún var gjaldkeri í Landspítalasjóðanefndinni en með byggingu spítalans vildu íslenskar konur minnast þeirra tímamóta er varð 19. júní 1915 er þær öðluðust kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Þórunn gaf sig að ýmsum öðrum félgasmálum í Reykjavík og í bæjarstjórn átti hún sæti 1908-1914.
Þórunnartún, áður Skúlatún
breytaÍ nóvember 2010 tilkynnti Skipulagsráð Reykjavíkurborgar að nafni Skúlatúns í Reykjavík skyldi breytt í Þórunnartún til að heiðra minningu Þórunnar Jónassen. Um leið var samþykkt að breyta nafni þriggja annarra gatna í Túnahverfi til heiðurs öðrum baráttukonum fyrir kvenréttindum. Nafni Skúlagötu var breytt í Bríetartún til að heiðra minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, nafni Sætúns í Guðrúnartún (til heiðurs Guðrúnar Björnsdóttur) og nafni Höfðatúns var breytt í Katrínartún til að heiðra minningu Katrínar Magnússon. Þessar fjórar konur voru þær fyrstu sem náðu kjöri til bæjarstjórnar Reykjavíkur.[2]
Tilvísanir
breyta- ↑ Jóna Sigurjónsdóttir, „Thorvaldsensfjelagið 1875 —19. nóvember 1925“, Morgunblaðið 19. nóvember 1925, bls. 5.
- ↑ „Kvenskörungarnir fá nöfnin sín á göturnar þrátt fyrir hörð mótmæli íbúa og fyrirtækja“ Geymt 26 nóvember 2010 í Wayback Machine, frétt Pressunnar af ákvörðun Skipulagsráðs, sótt 23. nóvember 2010.
Heimildir
breyta- Lesefni um Þórunni Jónassen á vef Kvennasögusafns Íslands Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine. Sótt 23 nóvember 2010.
- Minningargrein um Þórunni Jónassen í tímaritinu 19. júní. V árg. 10. tbl (apríl 1922), bls. 73-74.