Þérun kallast það þegar persónufornöfnin „vér“ og „þér“ eru notuð. Í nútímamáli eru orðin „við“ og „þið“ notuð þegar átt er við fleiri en einn, og nefnist það fleirtala. Í fornu máli voru „við“ og „þið“ einungis notuð um tvo einstaklinga, svokölluð tvítala. Um fleiri en tvo voru notuð fornöfnin „vér“ og „þér“. Í biblíumáli er þessi háttur enn hafður á, samanber Faðir vor en þar vísar „vor“ til fleiri en tveggja. Í formlegu eða hátíðlegu máli tíðkaðist að nota „vér“ og „þér“ hvort sem átt var við einn eða fleiri. Dæmi um þetta er „vér Íslendingar!“ Fleirtölumyndir sagna og lýsingarorða eru hafðar með „vér“ og „þér“. Dæmi: „Þér eruð frjálsir.“

Beyging

breyta
1. persóna[1] 2. persóna[2]
Eintala Tvítala Fleirtala/Þérun Eintala Tvítala Fleirtala/Þérun
nefnifall ég við vér þú þið þér
þolfall mig okkur oss þig ykkur yður
þágufall mér okkur oss þér ykkur yður
eignarfall mín okkar vor þín ykkar yðar

Hér áður fyrr þúuðu flestir embættismenn á Íslandi almúgamenn, en vildu að þeir myndu þéra sig og ávarpa rétt, eins og til dæmis kemur fram í þessari vísu:

Sælir verið þér, séra minn,
sagði ég við biskupinn.
Aftur kvað við ansa hinn:
Þú átt að kalla mig herra þinn. [3]

Eitt og annað

breyta
  • Eyjólfur ljóstollur og Magnús Stephensen landshöfðingi voru kunnugir og þúuðust. Einni sinni voru þeir og Þorvaldur lögregluþjónn, að tala saman á götu. Þorvaldur tekur þá eftir þessu og segir: „Þúar þú landshöfðingjan, Eyjólfur?“ Eyjólfi var lítið um Þorvald og svaraði strax: „Já, ég þúa guð og góða menn, en þéra andskotann og yður.“ [4]

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Beyging orðsins „vér". á Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls
  2. „Beyging orðsins „þér". á Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls
  3. Íslenskt mál; grein í Morgunblaðinu 1979
  4. Lögfræðingabrandarar, Ólafur Stefánsson frá Kalmanstungu, Skjaldborg, bls. 57, útgáfuár vantar

Tenglar

breyta


   Þessi málfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.