Úlfljótur var landnámsmaður á Austurlandi og fyrsti lögsögumaður Íslendinga. Við hann eru kennd Úlfljótslög, fyrstu lög íslenska þjóðveldisins. Faðir hans er óþekktur en móðir hans var Þóra mostrastöng Hörða-Káradóttir.

Úlfljótur nam land austur í Lóni og bjó í . Hann hefur vafalaust notið virðingar þótt hann væri ekki í hópi helstu höfðingja því þegar ákveðið hafði verið að stofna allsherjarþing var hann sendur til Noregs til að kynna sér lög og reglur, því menn sáu þörf þess að ein lög giltu á öllu landinu. Hann var þar í þrjá vetur og samdi í samráði við móðurbróður sinn, Þorleif hinn spaka Hörða-Kárason, sem talinn var manna vitrastur og mestur lögspekingur í Noregi, lög sem svipaði mjög til Gulaþingslaganna norsku. Annars eru heimildir um þetta mjög óljósar en Sigurður Nordal taldi að Úlfljótur hefði komið heim með lögin um árið 921.

Fóstbróðir Úlfljóts, Grímur geitskör eða geitskór, er sagður hafa farið um allt land að afla lögunum og hinni nýju stjórnskipan fylgis. Áður var talið að hann hefði verið að leita að heppilegum þingstað og fundið hann á Þingvöllum en nú eru orð Ara fróða yfirleitt túlkuð á annan hátt, enda hafa Kjalarnesþingmenn líklega verið búnir að ákveða hinn nýja þingstað.

Úlfljótur er talinn fyrsti lögsögumaðurinn en þegar Alþingi var formlega stofnað á Þingvöllum var Hrafn Hængsson kjörinn lögsögumaður, hvort sem Úlfljótur hefur þá verið látinn eða ekki viljað taka við embættinu. Sonur hans er sagður hafa verið Gunnar Úlfljótsson bóndi í Djúpadal í Eyjafirði, sem átti Þóru dóttur Helga magra.

Heimildir

breyta
  • „Afmæli Alþingis. Morgunblaðið, 13. apríl 1929“.
  • „Íslenska ríkið 1000 ára. Ísafold, 29. júní 1929“.