Óskar 1. Svíakonungur

(Endurbeint frá Óskar 1.)

Óskar 1. (Joseph François Oscar Bernadotte, á sænsku Josef Frans Oskar, 4. júlí 17998. júlí 1859) var konungur Svíþjóðar og Noregs frá 1844 til dauðadags. Hann var franskur að uppruna en varð erfðaprins þegar faðir hans var valinn krónprins Svíþjóðar í ágúst 1810.

Óskar Svíakonungur; málverk frá 1821, þegar hann var krónprins.

Óskar var fæddur í París, sonur Jean-Baptiste Bernadotte marskálks og konu hans Desirée Clary. Hún hafði áður verið trúlofuð Napóleon Bonaparte og var hann guðfaðir Óskars. Óskar og móðir hans komu til Svíþjóðar nokkru eftir að Jean-Baptiste var valinn arftaki Karls 13. og tók sér nafnið Karl Jóhann. Stokkhólmur varð heimkynni Óskars upp frá því en Desirée hélst ekki við þar, sneri aftur til Parísar 1811 og kom ekki aftur fyrr en eftir tólf ár.

Óskar var fljótur að læra sænsku og um það leyti sem hann varð krónprins, þegar Karl 13. dó 1818, var hann orðinn mjög vinsæll í Svíþjóð. Hann var vel gefinn og fékk góða menntun. Hann var tónskáld og samdi nokkur tónverk. Hann var áhugasamur um stjórnmál og framfarasinnaður og mjög andsnúinn íhaldssömum viðhorfum föður síns þótt hann snerist aldrei opinberlega gegn honum. Þegar hann tók sjálfur við völdum 1844 reyndist hann þó ekki eins frjálslyndur og stjórnarandstaðan hafði vonast eftir og vildi til dæmis ekki gera róttækar breytingar á stjórnarskránni frá 1809. Eitt af fyrstu verkum hans var þó að koma á prentfrelsi og árið 1845 kom hann á lögum sem tryggðu dætrum jafnan erfðarétt á við syni. Hann var mjög áhugasamur um samstarf Norðurlanda.

Fjölskylda

breyta

Kona Óskars var Jósefína af Leuchtenberg, dóttir Eugène de Beauharnais, sonar Jósefínu keisaradrottningar. Þau giftust með staðgengli í München 22. maí 1823 og síðan aftur í Stokkhólmi 19. júní sama ár. Börn þeirra voru:

  • Karl 15. (1826-1872), konungur Svíþjóðar og Noregs.
  • Gústaf prins (1827-1852), hertogi af Upplöndum.
  • Óskar 2. (1829-1907), konungur Svíþjóðar og Noregs.
  • Evgenía prinsessa (1830-1889).
  • Ágúst prins (1831-1873, hertogi af Dölunum.

Óskar var mikill kvennamaður, átti hjákonur og gekkst við þremur lausaleiksbörnum sínum. Hjónaband hans og Jósefínu er sagt hafa verið hamingjusamt framan af en eftir að hún uppgötvaði framhjáhaldið gat hún ekki fyrirgefið honum og samband þeirra var því stirt.

Óskar var heilsuveill, einkum síðustu árin sem hann lifði, og 1857 var hann svo illa haldinn að í samráði við lækna sína lagði hann af allar konungsskyldur og Karl krónprins varð ríkisstjóri. Óskar 1. lést tveimur árum síðar, nokkrum dögum eftir sextugsafmæli sitt.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Karl 14. Jóhann
Svíakonungur
(18441859)
Eftirmaður:
Karl 15.