Ívan Mazepa

(Endurbeint frá Ívan Mazeppa)

Ívan Stepanovytsj Mazepa (úkraínska: Іван Степанович Мазепа, pólska: Jan Mazepa Kołodyński; 30. mars 1639 – 2. október 1709) var rúþenskur hernaðar- og stjórnmálaleiðtogi sem réð yfir höfuðsmannsdæmi kósakka í Úkraínu innan rússneska keisaradæmisins frá 1687 til 1708.

Skjaldarmerki Mazepa-ætt Höfuðsmaður kósakkaríkisins
Mazepa-ætt
Ívan Mazepa
Ívan Mazepa
Іван Мазепа
Ríkisár 25. júlí 1687 – 11. nóvember 1708
SkírnarnafnÍvan Stepanovytsj Mazepa
Fæddur30. mars 1639
 Bíla Tserkva, pólsk-litáíska samveldinu (nú Úkraínu)
Dáinn2. október 1709 (70 ára)
 Bender, Furstadæminu Moldóvu, Tyrkjaveldi
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Stefan Adam Mazepa
Móðir Maryna Mokíjevska
EiginkonaHanna Polovets (1642–1704)

Á tíma Norðurlandaófriðarins mikla gerði Mazepa uppreisn gegn stjórn Péturs mikla Rússakeisara og gekk í lið með her Karls 12. Svíakonungs í von um að færa kósökkum í Úkraínu sjálfstæði. Mazepa og Karl töpuðu gegn Pétri í orrustunni við Poltava árið 1709 og Mazepa lést stuttu síðar.

Í rússneskri sagnahefð er Mazepa álitinn föðurlandssvikari gegn Rússlandi en í Úkraínu hefur í auknum mæli verið litið á hann sem þjóðhetju upp frá sjálfstæði landsins árið 1991. Saga Mazepa var fyrirmynd fjölda skáldverka og listaverka á rómantíska tímabilinu.

Æviágrip

breyta

Ívan Stepanovytsj Mazepa fæddist 30. mars 1639 og var úr fátækri aðalsfjölskyldu í landstjóraumdæmi pólska konungdæmisins í Podolíu. Hann gekk í háskóla í Kænugarði og nam síðan hjá jesúítum í Varsjá áður en hann varð skjaldsveinn Jóhanns 2. Kasimírs Póllandskonungs.[1]

Við hirð konungsins myndaði Mazepa tengsl sem áttu eftir að nýtast honum síðar á ævi hans. Hann ferðaðist mikið á yngri árum, meðal annars til Frakklands, Ítalíu og Hollands.[1]

Samkvæmt gamalli sagnahefð[2][3] sem Voltaire vísaði til í sagnaverki sínu um Karl 12. Svíakonung árið 1731[4] og fleiri höfundar eins og Dorville (1764) endurtóku síðar, var Mazepa í heimsókn í Volhyníu einhvern tímann á árunum 1659 til 1663 þegar hann hóf ástarsamband við eiginkonu húsbónda síns, pólsks aðalsmanns að nafni Falbowski.[3] Þegar Fablowski kom að Mazepa með eiginkonu sinni lét hann tjarga hann og binda hann nakinn við villihest sem reið með hann lengst út á úkraínsku gresjurnar. Úkraínskir bændur fundu hann og björguðu lífi hans. Mazepa settist að með bændunum og barðist gjarnan með þeim þar sem þau urðu oft fyrir innrásum, árásum og ránsferðum ýmissa stigamanna. Hann lagaðist fljótt að þessu lífi og fékk þar langþráð tækifæri til að sýna það sem í honum bjó.[5]

 
Mazepa og úlfarnir (1826) eftir Horace Vernet.

Í þjónustu Péturs mikla

breyta

Mazepa varð síðar ritari og undirmaður höfuðsmannsins Ívans Samojlovytsj (1630-1690). Samojlovytsj var settur af þann 20. júní 1687 eftir að hluti kósakkahers undir hans stjórns lét lífið í viðureign gegn Krímtöturum.[2] Mazepa var kjörinn höfuðsmaður í hans stað, en hann hafði þá notað stöðu sína til að koma óorði á Samojlovytsj í augum Golítsyn fursta, eins æðsta manns Rússlands.[1] Sem höfuðsmaður stóð Mazepa fyrir stækkun á Háskólanum í Kænugarði og lét reisa fjölda skóla- og kirkjubygginga til að stuðla að þróun menntaelítu í Úkraínu. Hann gerði jafnframt breytingar á Kænugarðsvirkinu til að geta varðveitt sjálfstæði þess betur.[1]

Mazepa ávann sér traust Péturs mikla Rússakeisara, sem sæmdi hann Orðu Heilags Andrésar og gaf honum stöðu í leyndarráði sínu í tuttugu ár fyrir trygga og skilvirka þjónustu hans. Hann hlaut jafnframt furstatign í Úkraínu en metnaði hans var þó ekki fullnægt.

Mazepa lagði lengi á ráðin um að gera uppreisn gegn keisaranum og öðlast sjálfstæði á sama tíma og keisarinn gerði sig líklegan til að aðlaga Úkraínu enn frekar að yfirvaldi stjórnarinnar í Moskvu, meðal annars með hugmyndum um að leggja niður höfuðsmannstitilinn.[1] Mazepa reyndi sér í lagi að villa um fyrir keisaranum með því að látast vera kominn fram á grafarbakkann, umkringja sig læknum og láta byggja kirkjur um allt.

Bandalag við Karl 12.

breyta

Á tíma Norðurlandaófriðarins mikla kom Mazepa sér í samband við Karl 12. Svíakonung. Hann sannfærði Zaporízjzja-kósakka um að Pétur mikli hygðist gera út af við menningu kósakka í Úkraínu.

 
Karl 12. og Mazepa eftir orrustuna við Poltava (1876) eftir Gustaf Cederström.

Kósakkahershöfðinginn Vasílíj Kotsjúbej og ofurstinn Ívan Ískra neituðu að taka þátt í uppreisn gegn keisaranum og sendu fregnir af svikráðum Mazepa til Péturs mikla. Mazepa, sem handsamaði sendiboða þeirra á leiðinni, lét hálshöggva þá báða þann 14. júlí 1708. Þar sem hann vissi að áætlanir hans hefðu spurst út fór Mazepa að búa sig fyrir stríð. Her keisarans undir forystu Aleksandrs Menshíkov lagði höfuðborg Mazepa, Batúryn, í rúst. Mazepa tókst engu að síður að safna liði og hélt af stað til að ganga til liðs við her Karls 12.,[2] sem treysti á heraflann sem Mazepa hafði lofað honum. Herir þeirra komu saman í Poltava en báðu þar afgerandi ósigur á móti Rússum í orrustunni við Poltava þann 8. júlí 1709.

Mazepa hafði biðlað til Tyrkjasoldáns um aðstoð í stríðinu með bréfi sem hann sendi til Istanbúl en hafði ekki haft erindi sem erfiði. Í bréfinu lýsti hann nauðsyn þess fyrir Tyrki að Úkraína yrði sjálfstæð því annars ætti Tyrkjaveldi óhjákvæmilega eftir að glata Krímskaga til Rússa. Þetta átti eftir að gerast sjötíu árum síðar.

Eftir ósigurinn við Poltava flúði Mazepa til Vallakíu og síðan til Bender í Moldavíu.[3] Hann lést þar þann 2. október 1709. Stuttu eftir dauða Mazepa lét Pétur mikli stofna nýja orðu, Júdasarorðuna, honum til „heiðurs“, en orðan átti að vera til marks um svikráð þeirra sem hana hlutu.[6]

Árið 1708 lét rússneska rétttrúnaðarkirkjan bannfæra Mazepa. Kirkjan neitar enn þann dag í dag að afturkalla bannfæringuna. Patríarkatið í Konstantínópel viðurkennir ekki bannfæringuna og telur hana ekki samræmast kanónískum kirkjulögum þar sem hún hafi verið gerð af pólitískum ástæðum án trúarlegra, guðfræðilegra eða kanónískra röksemda.[7]

Eftirmæli og arfleifð Mazepa

breyta

Bókmenntir

breyta

Þjóðsagnahefðin í kringum Ívan Mazepa varð innblásturinn að ljóðinu Mazeppa eftir Byron lávarð árið 1819 og samnefndu ljóði eftir Victor Hugo árið 1829.[8] Hann birtist jafnframt í aðalhlutverki í ljóðum í verkinu Poltava eftir Aleksandr Púshkín (1828-1829) og leikriti eftir Juliusz Słowacki (1840).

Tónlist

breyta

Árið 1851 birti Franz Liszt verkið Douze études d'exécution transcendante en fjórði hluti þess bar titilinn Mazeppa og var byggður á ljóði Hugos. Írska tónskáldið Michael William Balfe orti kantötuna The Page um Mazepa árið 1861 og Pjotr Íljítsj Tsjajkovskíj orti óperuna Mazeppa frá 1881 til 1883.

Myndlist

breyta

Á þriðja áratugi 19. aldar máluðu listamenn fjölda málverka af téðum atvikum úr lífi Mazepa, sér í lagi af því hvernig pólski aðalsmaðurinn refsaði honum með því að binda hann nakinn við hest. Théodore Géricault, Eugène Delacroix, Horace Vernet og Louis Boulanger máluðu allir myndir sem innblásnar voru af hugmyndinni um Mazepa sem frelsiselskandi kósakka. Þessi málverk urðu afar vinsæl í Frakklandi.

Hestamennska

breyta

Árið 1825, á sýningu Cirque-Olympique í París, sýndi ítalski hestamaðurinn Antonio Franconi atriði sem titlað var Mazeppa, eða tartarahesturinn. Sýningunni var vel tekið og hún var síðar flutt til engilsaxnesku ríkjanna, þar á meðal Bandaríkjanna, eftir því sem hestamennskutískan breiddist út.[9]

Kvikmyndir

breyta

Ævi Mazepa hefur verið söguefni í fjölda kvikmynda, meðal annars Mazeppa (1909), Mazeppa, der Volksheld der Ukraine (1919) eftir Martin Berger, Mazeppa (1993) eftir Bartabas og myndina Bæn fyrir Mazepa höfuðsmann (2001) eftir Júríj Ílljenko.

Höggmyndalist

breyta

Árið 2009 var minnismerki um Mazeppa eftir myndhöggvarann Giennadij Jerszow afhjúpað í Dytynets-garðinum í Tsjerníhív. Við afhjúpunarathöfnina brutust út átök á milli lögreglu og hatursmanna Mazepa.[10]

Örnefni

breyta

Götur í Kænugarði, Poltava og Tsjerníhív heita eftir Mazepa, auk þess sem forseti Úkraínu hefur veitt Kross Ívans Mazepa sem heiðursverðlaun frá árinu 2009.

Hernaður

breyta

Korvetta í úkraínska sjóhernum, Ívan Mazepa höfuðsmaður, heitir eftir Mazepa, auk þess sem 54. bryndeild hersins ber nafn hans.

Tengt efni

breyta
  • „Mazeppa. Kvæði eptir Byron. Þýtt af Steingrími Thorsteinsson“. Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags. 1. janúar 1896. bls. 200-230.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 Michel Heller (2015). Histoire de la Russie et de son empire. Éditions Perrin. doi:10.3917/perri.helle.2015.01. ISBN 978-2-262-06435-8..
  2. 2,0 2,1 2,2 Biographie universelle ancienne et moderne (1843) par Louis-Gabriel Michaud (voir gallica).
  3. 3,0 3,1 3,2 Dictionnaire universel d'histoire et de géographie par M.-N. Bouillet (1878).
  4. Les péripéties édioriales de cet ouvrage de Voltaire se trouvent résumées par Éric Schnakenbourg dans Dix-Huitième siècle, 40, Paris, 2008 — sur Cairn.
  5. Voltaire (édition de 1820), op. cit., tome I, bls. 260-262.
  6. orthodisc.su.
  7. "Ukraine has always been the canonical territory of the Ecumenical Patriarchate". ECUMENICAL PATRIARCHATE PERMANENT DELEGATION TO THE WORLD COUNCIL OF CHURCHES (enska). Sótt 2. maí 2022.
  8. Œuvres complètes de Victor Hugo. Poésie II. ; birt 1882 af J. Hetzel og A. Quantin.
  9. Patricia Mainardi, Husbands, Wives and Lovers: Marriage and its Discontents in Nineteenth-Century France, New Haven, Yale University Press, 2003, bls. 6.
  10. Monument à Ivan Mazepa (Tchernihiv).