Gönguskarðsá
Gönguskarðsá er bergvatnsá í Skagafirði sem rennur til sjávar í Gönguskarðsárósi í Skarðskrók (litlum innsveig á ströndinni rétt norðan bæjarins) norður af Sauðárkrók.[1] Hún er stundum sögð mesta manndrápsá Skagafjarðarsýslu.
Gönguskarðsá kemur úr Gönguskörðum og er dragá sem safnar í sig vatni úr mörgum smærri ám, bæði ofan úr Tindastóli og Molduxa og fjalllendinu þar á milli.[2] Hún er straumhörð og erfið yfirferðar í vatnavöxtum og hefur verið mjög mannskæð; sagt er að nærri tuttugu manns hafi drukknað þar. Einn þeirra var Guðmundur, faðir söngvarans Stefáns Íslandi, sem drukknaði í ánni vorið 1917. Hún var fyrst brúuð árið 1875.[3]
Í Landnámu er sagt frá því að sumir landnámsmanna hafi lent skipum sínum í Gönguskarðsárósi en þar hefur engin lending verið í margar aldir. Áin hefur nú verið brúuð niðri við ósinn en eldri brú var nokkru ofar.[4]
Gönguskarðsá var virkjuð á árunum 1947–1949[5] og vatn leitt úr litlu lóni ofan við Sauðárkrók og að aflstöð nyrst í bænum. Á miðri pípunni er jöfnunarturn (þrýstivatnsturn) úr steinsteypu, hinn fyrsti á landinu. Vorið 2007 gaf aðveitupípa Gönguskarðsárvirkjunar sig og varð mikið tjón þegar aur og vatn flæddu inn í hús í kaupstaðnum.[6]
Svo er að skilja heimildir sem áin breyti um nafn við "Kamba" (þegar hún á 9 km ógengna til sjávar) án þess að í hana falli önnur stór á, og heitir þaðan aftur úr Víðidalsá. Samtals mun áin Gönguskarðsá og Víðidalsá vera um 27 km.[7]
Heimildir
breyta- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 10. janúar 2025.
- ↑ Hallgrímur Jónasson: Árbók Ferðafélags Íslands. Skagafjörður. Ferðafélag Íslands, 1946.
- ↑ „Gönguskörð – Iceland Road Guide“. Sótt 10. janúar 2025.
- ↑ „Landnámabók (Sturlubók)“. www.snerpa.is. Sótt 10. janúar 2025.
- ↑ „Gönguskarðsárvirkjun I Projects“. www.verkis.com (bandarísk enska). Sótt 10. janúar 2025.
- ↑ „Gönguskarðsárvikjun - NAT ferðavísir“. 4. maí 2020. Sótt 10. janúar 2025.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 10. janúar 2025.