Ásta Kristín Árnadóttir

Ásta Kristín Árnadóttir (3. júlí 18834. febrúar 1955) sem jafnan var kölluð Ásta málari var húsamálari og fyrsta íslenska konan til taka próf í iðngrein. Hún fæddist í Narfakoti í Njarðvíkum en fluttist á miðjum aldri til Vesturheims og var þar búsett til dauðadags.

Gylfi Gröndal skrásetti endurminningar Ástu málara eftir frumdrögum hennar sjálfrar og öðrum heimildum og kom það rit út árið 1975.

Ásta fæddist að Narfakoti í Ytri-Njarðvíkum í Gullbringusýslu. Hún var dóttir Sigríðar Magnúsdóttur og Árna Pálssonar barnakennara. Foreldrar hennar voru Sigríður Magnúsdóttir úr Landeyjum og Árni Pálsson, kennari úr Fljótshlíð. Ásta var ein 10 systkina, sem kennd voru við Narfakot. Sum urðu landskunn, s.s. Magnús fjöllistamaður, Ársæll bókaútgefandi, Guðbjörg hjúkrunarkona og Þórhallur sellóleikari. Þau misstu ung föður sinn.

Nám og störf

breyta

Ásta hóf nám í málaraiðn sem lærlingur hjá Nikolaj Sófusi Berthelsen og Jóni Reykdal í Reykjavík árið 1903. Hún hélt til Kaupmannahafnar og kláraði sveinspróf í málaraiðn árið 1907 fyrst kvenna í Danmörku og hlaut bronsverðlaun og heiðursskjal fyrir góða frammistöðu. Hún fékk vinnu hjá Nielsen, Schröder & Nansen, sem voru konunglegir hirðmálarar. Ásta fékk einnig tilsögn hjá prófessor Overgaard sem hafði m.a. kennt Einari Jónssyni myndhöggvara og Ásgrími Jónssyni listmálara. Hún kláraði meistarapróf í málaraiðn í Hamborg árið 1910. Eftir það vann Ásta fyrir sér sem málarameistari í Danmörku, á Íslandi og síðast í Bandaríkjunum. Hún stofnaði fyrirtæki í Reykjavík árið 1912 og tók til sín lærlinga. Þar á meðal voru þrjár konur: Katrín Fjeldsted, Anna Havsteen og Margrét Kristgeirsdóttir.[1]

Ásta sagði sjálf frá því í viðtali við Eimreiðina árið 1911 að hún hafði fyrst hugsað sér að vera sjómaður:

„Fyrst datt mér í hug að verða sjómaður. Mínir aflgóðu útlimir og ágæta sjón hefði sjálfsagt gert mig hæfa til þess. En af tilviljun kyntist ég málaraiðninni og fékk meiri og meiri löngun til að verða málari. Og svo réðst ég í málaranám hjá Berthelsen málara í Reykjavík 1. marz 1903, þó allir hæddu mig og göbbuðu fyrir vikið“.[2]

Útskriftarfögnuður

breyta

Eftir að Ásta kláraði meistarapróf í málaraiðn hélt hún aftur til Íslands og var efnt til veislu í Iðnó henni til heiðurs. Voru þar saman komnar 50-60 konur. Erindi héldu Laufey Vilhjálmsdóttir frá Rauðará, Guðrún Björnsdóttir bæjarfulltrúi, Guðrún Jónasson, Theodóra Thoroddsen og Bríet Bjarnhéðinsdóttir. Gunnþórunn Halldórsdóttir flutti kvæði til Ástu frá veislugestum.[3]

Félagsstörf

breyta

Árið 1913 gekk Ásta í Kvenréttindafélag Íslands og var seinna sama ár kosin ritari félagsins.[4]

Einkalíf

breyta

Ásta flutti til Washington-fylkis í Bandaríkjunum árið 1920 og bjó þar til dauðadags. Hún giftist Svisslendingnum Jakob Thöni á gamlársdag árið 1920 og eignuðust þau eina dóttur og einn son. Jakob lést í bílslysi árið 1923. Árið 1925 giftist Ásta seinni eiginmanni sínum, Jóhanni Norman úr Skagafirði, og eignuðust þau tvö börn saman. Fyrir átti Jóhann sjö börn svo alls voru börnin 11 á milli þeirra. Þau bjuggu í Point Roberts í Washington-fylki. Árið 1934 brann hús þeirra hjóna með öllum innanstokksmunum en þau byggðu húsið aftur.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. Erla Hulda Halldórsdóttir, and Guðrún Dís Jónatansdóttir. Ártöl Og áfangar í Sögu íslenskra Kvenna. Ný Og Endurbætt útg. ed. Reykjavík: Kvennasögusafn Íslands, 1998. Bls. 14.
  2. Ohlert, Annie. „Ásta Meistari.“ Eimreiðin, 1911, 128-132.
  3. Kvennablaðið 16. árg, 5. tbl. (10.06.1910), bls. 33-35.
  4. http://www.konurogstjornmal.is/asta-kristin-arnadotti/ (skoðað 29.12.2016)
  5. Sigríður J. Magnússon. "Fyrsti Kvenmálarameistari Heimsins : Brautryðjandastarf." 19. Júní, 1955, 9-11.