Ásmundur Öndóttsson
Ásmundur Öndóttsson var ásamt Ásgrími bróður sínum landnámsmaður í Kræklingahlíð í Eyjafirði.
Faðir þeirra bræðra var Öndóttur kráka Erlingsson, sem bjó í Hvinisfirði á Ögðum í Noregi, en móðir þeirra hét Signý Sighvatsdóttir. Grímur hersir vó þá Öndótt vegna deilna um arf eftir Björn, afa Helga magra, en sömu nótt bar Signý ekkja hans allt lausafé sitt á skip og fór með syni þeirra til föður síns og sendi þá síðan til fóstra síns. Þeir vildu þó ekki vera þar og héldu í heimabyggð sína og leyndust þar um veturinn. Sumarið eftir fóru þeir að Grími hersi, brenndu hann inni og þvinguðu Auðun jarl Haraldar konungs, sem þar var gestkomandi, til að greiða sér bætur fyrir Öndótt.
Síðan fóru þeir bræður í Súrnadal og flæktust þar inn í deilumál. Ásgrímur særðist illa og var talinn dauður en komst til skógar og greru sár hans þar. En sama sumar fór Ásmundur til Íslands og vissi ekki að bróðir hans var á lífi. Hann kom í Eyjafjörð til Helga magra frænda síns, sem gaf honum Kræklingahlíð, og er sagt að hlíðin hafi fengið nafn af auknefni Öndótts föður bræðranna og hafa þeir þá verið kallaðir Kræklingar. Ásmundur bjó á Glerá hinni syðri og var kona hans Þorgerður, dóttir Böðólfs Grímssonar landnámsmanns á Tjörnesi og konu hans Þorbjargar hólmasólar, dóttur Helga magra.
Ásgrímur kom seinna til Íslands og eignaðist Kræklingahlíð með bróður sinum og bjó á Glerá hinni nyrðri. Einnig gáfu þeir bræður síðar Eyvindi hana frænda sínum hluta af landnámi sínu.