Ásgeir Jónsson frá Gottorp
Ásgeir Jónsson (30. nóvember 1876 – 23. maí 1963) var íslenskur bóndi og rithöfundur á 20. öld. Hann fæddist á Þingeyrum í Húnavatnssýslu, sonur Jóns Ásgeirssonar frá Þingeyrum, (f. 16. mars 1839, d. 29. júlí 1898) og Signýjar Hallgrímsdóttur. Ásgeir lést í Reykjavík 86 ára þar sem hann bjó síðustu árin. Hálfsystkin Ásgeirs samfeðra voru, Guðjón bóndi á Leysingjastöðum, Ásgeir Magnús, bóndi á Sellátrum í Reyðarfirði, Láru og Jenny báðar ógiftar og barnlausar, Fanny kona Jóhanns bónda Guðmundssonar í Holti í Svínadal, Ásgeir Lárus ráðunaut hjá Búnaðarfélagi Íslands, Magnús bókbindari í Reykjavík, Jakobína sem fór til Ameríku og Jónínu konu Helga Jónssonar frá Sellátrum við Reyðarfjörð.
Ásgeir varð búfræðingur frá Hólum 1905 og stundaði fram yfir þrítugt ýmis sveitastörf, einkum fjárhirðingu og tamningar hesta. Hann hóf búskap að Gottorp í Vestur-Húnavatnssýslu 1908-1942. Í Gottorp varð hann landsfrægur fyrir ræktun á fé og fór fé hans, Gottorpsféð, víða um land sem kynbótafé. Síðar var hann búsettur í Reykjavík til æviloka. Þar stundaði hann einkum ritstörf meðan heilsa hans leyfði. Eftir hann liggja bækurnar; Horfnir góðhestar I, (1946) og Horfnir góðhestar II, (1949), Samskipti manns og hests, (1951) og Forystufé, (1953). Ásgeir varð riddari hinnar íslensku fálkaorðu 1952. Heiðursfélagi Landssambands Hestamanna nr. 1, hestamannafélaginu Fák í Reykjavík og Léttfeta í Skagafirði.
Kona hans var Ingibjörg Björnsdóttir (f. 31. mars 1886, d. 1970). Þau voru barnlaus en tóku nokkur börn í fóstur og ólu upp sem sín eigin.
Þau hjónin frá Gottorp eru jarðsett í steyptum heimagrafreit á jörðinni, við svokallað Kerlingarsíki sem gerður var árið 1963 og var það síðasti heimagrafreitur sem leyfi var veitt fyrir á Íslandi. Þar hjá var í Blesi, hinn frægi hestur Ásgeirs, heygður á staðnum þar sem hann stóð jafnan og horfði yfir til æskustöðvanna í Vatnsdalnum.
Um miðja 20 öldina eignaðist bróðursonur Ásgeirs, Steinþór Ásgeirsson frá Gottorp, f. 1912 verktaki í Reykjavík, jörðina, ásamt með eiginkonu sinni, Þorgerði Þórarinsdóttur (ólst upp hjá Ásgeiri og Ingibjörgu), f. 1918, og ráku þar hrossabú um áratugaskeið. Í dag er jörðin enn í eigu þessarar sömu ættar, því hana eiga dóttir Steinþórs og tveir synir hennar. Íbúðarhúsið í Gottorp stendur enn og er notað sem sumarbústaður.