Kongófljót

(Endurbeint frá Zairefljót)

Kongófljót er stærsta fljót Mið-Afríku og annað lengsta fljót Afríku (á eftir Níl). Það er 4.374 km langt. Ef Chambesi-fljót er talið upptök fljótsins, verður það 4.700 km langt. Fljótið og þverár þess renna í gegnum stærsta regnskóg heims á eftir Amasónfrumskóginum (sem er miklu stærri) og annað stærsta vatnasvið heims. Á milli 1971 og 1997, þegar Austur-Kongó hét formlega Saír (Zaïre), kölluðu þarlendir fljótið Saírfljót (Zaïre-fljót).

Kongófljót og aðrennslissvæði

Upptök fljótsins eru í fjöllunum vestan við Sigdalinn mikla í Austur-Afríku og í Tanganjika-vatni og Mweru-vatni sem renna í Lualaba-fljót sem verður að Kongó neðan við Boyomafossa. Kongófljót rennur í vesturátt frá Kisangani rétt fyrir neðan fossana, sveigir síðan í suðvestur og rennur fram hjá Mbandaka, sameinast Ubangi-fljóti og rennur í Malebobugðunua þar sem Kinsasa og Brazzaville standa gegnt hvor annarri á árbökkunum. Þaðan mjókkar áin og rennur um flúðir í djúpum gljúfrum (Livingstone-fossa) fram hjá Matandi og Boma og út í hafið við strandbæinn Muanda.

Vatnasvið árinnar er rúmlega 4 milljónir ferkílómetrar. Rennsli hennar við ósa er að meðaltali 41.000 m3/s, minnst 23.000 og mest 75.000 m3/s. Á hverju ári skilar Kongófljót um 86 milljónum tonna að seti í Atlantshafið.

Vegna Livingstonfossanna er fljótið ekki skipgengt frá upptökum til ósa. Fyrir ofan fossanna er það þó nýtt til flutinga og þá sérstaklega á milli Kinshasa and Kisangani. Um 40 raforkuver eru í fljótinu. Þeirra stærst er Inga-stíflan sem er um 200 km suðvestur af Kinshasa.

  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.