Wolin
Wolin (þýska: Wollin) er eyja við suðurströnd Eystrasalts, við norðvesturhorn Póllands. Hún er norðan við Stettiner Haff, um 60 km norðan við borgina Stettin. Hún afmarkast að vestan af ánni eða sundinu Swine (pólska: Świna), og að austan af ánni Dziwnu. Hún er um 265 km² og nær hæst um 116 m yfir sjávarmál.
Wolin er hluti af því svæði sem norrænir menn kölluðu Vindland (á víkingaöld). Þar bjuggu þá vestur-slavneskar þjóðir.
Í Jómsvíkinga sögu er sagt að Jóm sé hérað á Vindlandi, og er talið að átt sé við eyjuna Wolin. (Jóm er hvorugkynsorð, Jóm, um Jóm, frá Jómi til Jóms). Þetta mun vera sama nafn og Jumne sem kemur fyrir í latínuritum frá miðöldum (Adam frá Brimum).
Á Wolin er einnig borgin Wolin, þar sem hafa fundist miklar minjar frá víkingaöld. Margir fræðimenn telja að þar hafi verið Jómsborg, sem getið er um í Jómsvíkinga sögu. Þar höfðu Jómsvíkingar aðstöðu. Ekki eru þó full vissa fyrir því að Wolin sé Jómsborg.
Þjóðsagnaborgin Vineta er talin hafa verið á Wolin.
Saga eyjarinnar
breytaÁ víkingaöld var borgin Wolin mikilvægur verslunarstaður. Hafa fornleifarannsóknir sýnt að þar var blönduð byggð norrænna og slavneskra íbúa.
Á tímum Mieszko 1., eða árið 972, komst eyjan undir stjórn pólska ríkisins, en það missti yfirráðin um 1007. Næstu öldina réðu danskir víkingar mestu á eyjunni og fóru þeir ránsferðir um nálæg lönd. Voru þeir kallaðir Jómsvíkingar. Magnús góði Danakonungur herjaði þar árið 1043 til að refsa þeim. Um 1121 vann Boleslaw 3. konungur eyjuna undir Pólland á ný. Skömmu síðar var íbúunum snúið til kristni, og var biskupsstóll stofnaður í borginni Wolin árið 1140. Árið 1535 var íbúum Wolin snúið til Lútherstrúar. Í Þrjátíu ára stríðinu, eða um 1630, lögðu Svíar Wolin undir sig. Árið 1720 varð hún prússnesk, og við ríkissameiningu Þýskalands 1871 varð hún hluti af þýska ríkinu. Í lok seinni heimsstyrjaldar, 1945, hertók Rauði herinn eyjuna, og eftir stríð var Þjóðverjum gert að yfirgefa hana og hófst þá pólskt landnám þar á ný.
Eyjan tilheyrir nú Póllandi, eða frá 1945. Eyjan er í Pommern. Þar eru fjölsóttar baðstrendur.
Heimildir
breyta- Georg Wilhelm v. Raumer: Die Insel Wollin und das Seebad Misdroy: Eine historische Skizze. Berlin 1851
- Peter August Rolfs (Hrsg.): Die Insel Wollin. Ein Heimatbuch und Reiseführer. Julius Beltz, Langensalza 1933
- Erwin Rosenthal: Die Insel Wollin, Kaseburg und Cammin. Rhinoverlag, Ilmenau 2011, ISBN 978-3-939399-09-4
- Fyrirmynd greinarinnar var „Wolin“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. júlí 2011.
Tenglar
breyta- Um þjóðgarðinn á Wolin Geymt 18 október 2011 í Wayback Machine (pólska, þýska, enska).