Wikipedia:Grein mánaðarins/03, 2022

Bogdan Kmelnitskíj var stjórnmála- og hernaðarleiðtogi úkraínskra kósakka í þáverandi pólsk-litháíska samveldinu. Kmelnitskíj leiddi uppreisn gegn pólska aðlinum árið 1648 og stofnaði sjálfstætt höfuðsmannsdæmi á landsvæði sem nú er í Úkraínu. Síðar hallaði hann sér að rússneska keisaradæminu og samþykkti árið 1654 að sverja Rússakeisara hollustu sína með Perejaslav-sáttmálanum.

Eftir dauða Kmelnitskíj varð til eins konar þjóðsagnahefð í kringum hann. Hann varð að baráttutákni kósakka og að úkraínskri þjóðhetju. Valdatíð hans er þó jafnframt alræmd fyrir ofsóknir gegn Pólverjum, kaþólikkum og sérstaklega Gyðingum. Nokkrir tugir þúsunda þeirra voru drepnir af stjórn Kmelnitskíj.