Wikipedia:Gæðagreinar/Platon
Platon (forngríska: Πλάτων (umritað Plátōn)) (um 427 f.Kr. – 347 f.Kr.) var forngrískur heimspekingur og einn áhrifamesti hugsuður sögunnar. Hann var nemandi Sókratesar og kennari Aristótelesar, rithöfundur og stofnandi Akademíunnar í Aþenu. Í löndum þar sem töluð er arabíska, tyrkneska, írönsk mál, eða úrdu mál er hann nefndur Eflatun, sem þýðir uppspretta vatns og, í yfirfærðri merkingu, þekkingar.
Platon var sonur aþensku hjónanna Aristons og Periktíone (eða Potone). Fornar heimildir herma að raunverulegt nafn Platons hafi verið Aristókles en hann hafi fengið gælunafnið Platon í glímuskóla Aristons glímukappa frá Argos af því að hann var svo þrekvaxinn
Fæðingardagur Platons er ekki þekktur með vissu. Talið er að hann hafi fæðst í Aþenu eða á eynni Ægínu annaðhvort 428 f.Kr. eða 427 f.Kr. Díogenes Laertíos rekur ættir föður hans aftur til Kodrosar, konungs í Aþenu, og Melanþosar, konungs á Messínu en þeir röktu ættir sínar aftur til Póseidons. Langalangafi Peiktíone, móður Platons, var Dropídes, bróðir Sólons, hins fræga löggjafa Aþeninga.