Wikipedia:Úrvalsgrein


Úrvalsgrein er grein sem hefur eftirfarandi einkenni:

 1. Hún er dæmi um allra bestu greinar Wikipediu.
 2. Hún er vel skrifuð, gerir efninu fullnægjandi skil, rétt og laus við staðreyndarvillur, skrifuð út frá hlutlausu sjónarmiði og stöðug. Lesa má nánar um kröfurnar sem gerðar eru til úrvalsgreina í greininni Hvernig á að skrifa góða grein. Sjá einnig fullkomnu greinina og handbókina. Í grófum dráttum eru kröfurnar þessar:
  • (a) „vel skrifuð“ þýðir að greinin er skrifuð á góðri íslensku og er laus við stafsetningar- og málfræðivillur;
  • (b) „gerir efninu fullnægjandi skil“ þýðir að greinin fjallar um allar hliðar viðfangsefnisins og undanskilur ekki mikilvægar staðreyndir eða jafnvel smáatriði;
  • (c) „rétt og laus við staðreyndarvillur“ felur m.a. í sér að fullyrðingar greinarinnar eru sannreynanlegar og eru studdar heimildum utan alfræðiritsins og rétt er farið með heimildir (sjá Heimildanotkun); í úrvalsgrein ætti að vera „heimildaskrá“, sem vísað er í á viðeigandi hátt. Um neðanmálsgreinar má lesa í greininni meta:cite á meta Wikipediu;
  • (d) „skrifuð frá hlutlausu sjónarmiði“ þýðir að hlutleysi greinarinnar er óumdeilt og fullyrðingar greinarinnar eru réttar (sjá Hlutleysisreglan); og
  • (e) „stöðug“ þýðir að greinin tekur ekki miklum breytingum frá degi til dags og ekki er barist um hana í breytingastríði.
 3. Framsetning úrvalsgreina er í samræmi við það sem fram kemur í Handbókinni, t.d. hefur úrvalsgrein:
  • (a) stuttan inngang, sem lýsir öllum meginatriðum viðfangsefnisins og undirbýr lesandann fyrir ítarlegri umfjöllun í köflunum sem fylgja;
  • (b) viðeigandi skiptingu efnis í kafla og undirkafla;
  • (c) ítarlegt en ekki yfirþyrmandi efnisyfirlit; og
  • (d) er flokkuð á viðeigandi hátt.
 4. Myndir eru ekki skilyrði þess að grein komist í flokk úrvalsgreina. Á hinn bóginn verður meðferð mynda í úrvalsgreinum að vera til sóma, hafi þær myndir á annað borð. Í úrvalsgreinum eru myndir þar sem við á, með viðeigandi og lýsandi skýringartexta. Myndir mega ekki vera of margar miðað við lengd greinar og verða að vera undir frjálsu notkunarleyfi.
 5. Úrvalsgreinar verða að vera hæfilega langar, fjalla um efnið á hnitmiðaðan hátt og án ónauðsynlegra útúrdúra.
  • Það er breytilegt eftir viðfangsefni greinar hvað telst hæfileg lengd. Aðalatriðið er að greinin sé hnitmiðuð, fræðandi og geri efninu tæmandi eða a.m.k. fullnægjandi skil. Eigi að síður má hafa til viðmiðunar sem þumalfingursreglu að úrvalsgreinar eru alla jafnan yfir 15 KB og undir 65 KB.

Munurinn á gæðagrein og úrvalsgrein

breyta

Meginmunurinn á gæðagrein og úrvalsgrein er sá að gæðagrein er góð grein en úrvalsgrein er framúrskarandi. Þá gerir gæðagrein efni sínu góð skil en úrvalsgrein gerir efninu tæmandi skil. Gera má ráð fyrir að síðarnefndi munurinn endurspeglist að einhverju leyti í lengd greina og að gæðagreinar séu alla jafnan styttri en úrvalsgreinar. Þó er vert að benda á að engin nauðsynleg tengsl eru milli lengdar greinar og þess hve vel greinin gerir efninu skil. Meiri kröfur eru gerðar um frágang heimilda í úrvalsgreinum.