Hjálp:Að skrifa betri greinar
Á þessari síðu eru nokkrar ráðleggingar fyrir byrjendur um hvernig megi skrifa betri greinar í alfræðiritið.
- Það getur einnig verið gott að skoða bestu greinarnar á Wikipediu en þær eru svokallaðar úrvalsgreinar og gæðagreinar.
- Síðurnar Wikipedia:Úrvalsgrein og Wikipedia:Gæðagrein lýsa almennum skilyrðum sem grein þarf að uppfylla til að hljóta viðurkenningu sem úrvals- eða gæðagrein. Síðan Wikipedia:Fullkomna greinin hefur einnig ábendingar um ritun góðra greina.
- Leiðbeiningar um heimildanotkun má nálgast á síðunni Hjálp:Heimildanotkun.
- Í Handbókinni eru gagnlegar ábendingar um nafnavenjur, ritstíl o.fl.
- Svindlsíðan hefur gagnlegar leiðbeiningar um tæknileg atriði.
- Fleiri hjálpar síður eru á síðunni Hjálp:Efnisyfirlit.
Bygging
breytaBygging greina skiptir máli. Góðar greinar hefjast á hnitmiðuðum inngangi, hafa skýra byggingu og flæði í meginmáli og enda á viðaukum eftir því sem við á, t.d. heimildaskrám eða tenglum.
Bygging meginmálsins
breytaInngangur
breytaGóðar greinar byrja á stuttum inngangi sem skilgreinir viðfangsefnið eða útskýrir í stuttu máli hvað það er. Inngangurinn ætti að vera fyrir ofan fyrsta kaflaheitið eða millifyrirsögnina. Það er nánast aldrei betra að bæta við fyrirsögninni == Inngangur == og það tíðkast ekki að gera það á Wikipediu. Stundum er fyrsti kaflinn á eftir innganginum nokkurs konar yfirlit yfir viðfangsefnið og nefnist þá iðulega „Yfirlit“.
Venjulega inniheldur inngangurinn, auk skilgreiningar á viðfangsefninu, öll meginatriðin um viðfangsefnið, eins konar ágrip af því mikilvægasta sem fram kemur síðar í greininni. Í persónugreinum er inngangurinn gjarnan ágrip af helstu afrekum persónunnar.
Ef inngangurinn er nógu langur til þess að innihalda nokkrar efnisgreinar þá ætti fyrsta efnisgreinin að vera stutt og hniðmiðuð en efnisgreinarnar sem á eftir koma ættu að innihalda ágrip af greininni. Í innganginum ætti að koma fram hvers vegna viðfangsefnið er markvert.
Efnisgreinar
breytaEfnisgreinar ættu að vera nógu stuttar til þess að vera læsilegar en þó innihaldsríkar. Skipta ber of löngum efnisgreinum upp en efnisgreinar ættu að koma í eðlilegri röð þannig að ein leiði af annarri og lesandinn tapi ekki áttum.
Varast ber að ofnota einnar setningar langar efnisgreinar. Greinar ættu aldrei að innihalda einungis svo stuttar efnisgreinar.
Sumar efnisgreinar eru í raun vart annað en listar og töflur. Listar og töflur geta verið gagnleg en efnisgrein ætti ekki að vera upptalning af því tagi. Slíkar efnisgreinar ætti að umorða og gera læsilegri eða breyta í töflu eða lista.
Kaflaheiti og millifyrirsagnir
breytaKaflaheiti og millifyrirsagnir hjálpa til við að gera lesandanum ljóst hvernig greinin er byggð upp og koma fram í efnisyfirlitinu. Kaflaheiti og millifyrirsagnir ættu að vera lýsandi fyrir innihald kaflans eða undirkaflans.
Fyrirsögnum er skipað í stigveldi. Allir kaflar ættu að hefjast á 2. stigi, þ.e. (== Kaflaheiti ==) en allar millifyrirsagnir innan kaflans ættu að vera einu stigi neðar, þe. : === Undirkafli ===, ==== Millifyrirsögn í undirkafla ==== og þannig koll af kolli. Það getur verið matsatriði hvort halda beri löngum undirkafla á sömu síðu eða flytja hann á eigin síðu til að stytta greinina. Ef það er gert er rétt að hafa áfram útdrátt úr honum á upphaflegu síðunni.
Í kaflaheitum og millifyrirsögnum ættu almennt ekki að vera tenglar. Innri tenglar ættu frekar að vera í texta undirkaflans.
Algeng kaflaheiti
breytaÍ persónugreinum er algengt að sé kafli sem heitir „Æviágrip“. Sá kafli kemur venjulega strax á eftir innganginum og í honum er farið yfir ævisögu mannsins. Ef æviágripið er mjög langt er gott að skipta því upp í undirkafla sem fjalla t.d. um uppvaxtarár eða menntun o.s.frv.
Í greinum sem fjalla ekki um persónur er stundum kafli sem ber heitið „Yfirlit“ og inniheldur ágrip af efni greinarinnar. Slíkur kafli virkar oft eins og ítarlegri inngangur.
Myndir
breytaMynd segir meira en þúsund orð, segir máltækið. Myndir koma oft að gagni til að hjálpa lesandanum að glöggva sig á efni greinarinnar. Myndir ættu helst að vera á þeim stað í greininni þar sem fjallað er um viðfang myndarinnar. Þegar mynd er sett í inngang greinar eru hún venjulega höfð hægra megin á síðunni. Á svindlsíðunni eru upplýsingar um hvernig skal staðsetja myndir hægra megin eða vinstra megin á síðunni og ráða stærð þeirra.
Nánari leiðbeiningar um myndanotkun má nálgast á síðunni Hjálp:Myndir.
Viðaukar
breytaEftirfarandi viðaukar eru oft viðeigandi á eftir meginmáli greinarinnar:
- (a) Listi útgefinna verka höfundar (t.d. bóka, hljómplatna o.s.frv.). Þessi listi er venjulega í tímaröð.
- (b) Tilvísanir í heimildir og neðanmálsgreinar. Þessi viðauki á að heita annað hvort „Tilvísanir“ eða „Neðanmálsgreinar“. Þessi viðauki á að koma á eftir meginmáli en á undan heimildaskrá.
- (c) Heimildaskrá. Þessi viðauki er listi yfir heimildir sem vísað er í í neðanmálsgreinum og/eða ítarefni sem mælt er með. Hann getur ýmist heitið „Heimildir“, „Ítarefni“ eða „Frekara lesefni“. Listinn ætti að vera í stafrófsröð eftir höfundum (eftirnafni erlendra höfunda en eiginnafni Íslendinga) og ætti að koma á eftir tilvísununum/neðanmálsgreinunum en á undan innri tenglum.
- (d) Innri tenglar á greinar sem fjalla um skyld efni. Þessi viðauki á að heita „Tengt efni“.
- (e) Ytri tenglar á viðeigandi vefsíður sem tengjast efni greinarinnar. Þessi viðauki ætti að heita „Tenglar“. Athuga ber að allir ytri tenglar ættu að vera í þessum viðauka (eða í neðanmálsgrein) en aldrei í sjálfu meginmálinu.
Lengd greina
breytaGreinar ættu ekki að verða of langar. Þær ættu að útskýra það sem þarf en ekki að ofgera umfjölluninni. Helst ættu greinar ekki að vera lengri en 50KB en 30-35KB er afar ákjósanleg lengd. Ef grein lengist langt umfram þessi mörk er að öllum líkindum tímabært að skipta henni upp í fleiri greinar og skilja eftir útdrætti þar sem við á. Efst í kafla eða undirkafla sem hefur verið styttur er rétt að hafa tengil á nýju greinina þar sem fjallað er um viðfangsefni efnisgreinarinnar í lengra máli. Þá er notað sniðið {{aðalgrein|heiti greinar}}. Þess ber að gæta að þegar langur kafli í grein er gerður að sjálfstæðri grein verður oft að endurskrifa hluta hans til að hann geti staðið sem sjálfstæð grein; til dæmis þarf að rita nýjan inngang að nýju greininni svo að lesandinn átti sig á samhengi textans sem nú hefur verið tekinn úr sínu fyrra samhengi.
Ritstíll og tónn greinarinnar
breytaWikipedia er alfræðirit og málið á henni ætti að endurspegla þá staðreynd. Tónn greina ætti ávallt að vera formlegur en forðast ber talmál í greinum.
Fréttastíll
breytaSumir Wikiverjar eru hrifnir að notkun fréttastíls. Í fréttastíl eru setningar stuttar og hnitmiðaðar. Mikilvægustu upplýsingarnar koma fyrst og næstmikilvægustu upplýsingarnar næst og þar fram eftir götunum. Alfræðirit þarf alls ekki að notast við fréttastíl en það getur verið höfundum gagnlegt að þekkja stílinn þegar þeir vinna að greinum.
Ágripsstíll
breytaÁgripsstíll er áþekkur fréttastíl nema hvað hann á við um viðfangsefni innan greina en ekki greinarnar í heild sinni. Þá er mikilvægustu upplýsingunum innan hvers kafla komið fyrir fremst í kaflanum. Í grein um Albert Einstein kæmu til dæmis allar mikilvægustu upplýsingar um vísindastarf hans og -afrek fram fremst í innganginum og svo síður mikilvægar staðreyndir um hann. Í undirkafla um vísindastarf hans mætti síðan finna fyrst ítarlegra ágrip af kenningum hans og svo undirkafla með enn ítarlegri umfjöllun.
Hugmyndin er sú að setja upplýsingar í greininni fram með þeim hætti að lesendur geti valið í hve miklum smáatriðum þeir lesi um viðfangsefnið. Sumir lesendur þurfa einungis hnitmiðað ágrip af aðalatriðunum og þurfa þá ekki að lesa meira en innganginn en aðrir eru að leita að ítarlegri umfjöllun og finna hana þá í viðeigandi kafla greinarinnar.
Í greinum sem skrifaðar eru í ágripsstíl verður ætíð nokkur endurtekning. Örlítil endurtekning er í góðu lagi en henni þarf þó að stilla í hóf. Of mikil endurtekning gerir greinina leiðinlega aflestrar og lengir greinina auk þess óþarflega mikið.
Tónn
breytaTónninn í greinum á Wikipediu ætti að vera formlegur. Það þýðir meðal annars að forðast ber talmál í greinum. Það þýðir líka að málið á greinunum ætti ekki að vera skáldlegt eða í skrúðstíl. Aftur á móti ætti texti greina ekki að innihalda fræðimál og hugtök sem eru óskiljanleg öðrum en innvígðum. Þegar fræðihugtök, lagamál o.s.frv. er notað í greinum ætti að fylgja stutt útskýring á því hvað um ræðir. Mikilvægt er að forðast langlokusetningar og fylgja eðlilegri orðaröð. Forðast ber notkun ræðuspurninga og spurninga til lesandans.
Greinar ættu ekki að vera skrifaðar frá sjónarhóli fyrstu persónu og ættu ekki að ávarpa aðra persónu. Fornöfn eins og „ég“ og „við“ fela oft í sér sjónarhorn sem brýtur gegn hlutleysisreglunni; það er þó ekki algilt. Notkun annarrar persónu getur gert að verkum að greinin hljómi eins og leiðbeiningarbæklingur.
Greinarmerkjasetning ætti að vera með hefðbundnu móti. Upphrópunarmerki ætti einungis að nota í beinum tilvitnunum.
Samhengi
breytaWikipedia er alþjóðlegt alfræðirit (á ýmsum tungumálum). Lesendur Wikipediu hafa ólíkan bakgrunn, menntun og viðhorf. Greinar ættu að vera öllum lesendum aðgengilegar. Gera skal ráð fyrir að lesendur séu að lesa grein til þess að fræðast; varast ber að gera ráð fyrir að lesendur viti mikið um viðfangsefnið. Enda þótt gera megi ráð fyrir að langflestir lesendur Wikipediu á íslensku séu Íslendingar ber eigi að síður að varast að ætla að lesendur hafi sama bakgrunn, menntun og þekkingu og flestir Íslendingar. Það er yfirleitt þess virði að taka fram það sem gæti virst augljóst.
Einnig ber að hafa í huga að stutt útskýring á fræðihugtökum (jafnvel þótt tengt sé í grein um hugtakið) er mikilvægur þáttur í að gefa lesandanum nauðsynlegt samhengi til þess að skilja greinina.
Mat á samhengi
breytaEftirfarandi ráð eru hjálpleg til þess að leggja mat á samhengi eða samhengisleysi textans:
- Er greinin skiljanleg lesanda sem fær hana upp við það að smella á tengilinn Kerfissíða:Handahófsvalin síða?
- Gerðu þér í hugarlund að þú sért tungumálasnillingur frá öðru landi en Íslandi en kunnir reiprennandi íslensku. Áttarðu þig á því hvað greinin fjallar um? (Athugaðu t.d. hvort „Akureyri er kaupstaður“ eða „Akureyri er kaupstaður á Íslandi“ segði þér meira um viðfangsefnið.)
- Gætu lesendur áttað sig á því hvað greinin fjallar um ef þú prentaðir út einungis fyrstu blaðsíðuna og dreifðir henni til þeirra?
- Hefði lesandi mögulega áhuga á að smella á einhvern tenglanna?
Að taka fram hið augljósa
breytaSumar staðreyndir gætu virst höfundinum augljósar en þó ekki lesandanum. En hafa ber í huga að greinar eru skrifaðar fyrir lesandann en ekki fyrir höfundinn. Íhugið eftirfarandi skilgreiningu:
- Ford Thunderbird var viðbragð við Chevrolet Corvette og var settur í framleiðslu árið 1955.
Hér er hvergi minnst orði á aðalatriðið í skilgreiningu á Ford Thunderbird: nefnilega að hann er bifreið. Í staðinn er gert ráð fyrir að lesandinn viti það — en þó er alls ekki víst að svo sé, ekki síst ef lesandinn þekkir ekki vörumerkin Ford og Chevrolet. Í staðinn mætti skrifa:
- Ford Thunderbird er bifreið framleidd í Bandaríkjunum af bifreiðaverksmiðjum Ford.
Þó er ekki þörf á að ganga svo langt að útskýra hugtak eins og „bifreið“ (t.d. Ford Thunderbird er bifreið, sem er farartæki knúið áfram af sprengihreyfli...)
Einnig ber að taka skýrt fram ef viðfangsefnið er skáldað (en ekki raunverulegt). Til dæmis er eftirfarandi skilgreining ófullnægjandi:
- Harry Potter er galdradrengur sem gengur í Hogwartsskóla.
Vera má að flestum lesendum sé augljóst að göldróttir drengir séu ekki raunverulega til. En það er alls ekki alltaf augljóst að persónur eða fyrirbæri úr skáldverkum eða þjóðsögum séu ekki til, sbr. e.t.v.:
- Bjartur í Sumarhúsum var þver og sjálfstæður bóndi [...]
Hér væri betra að segja:
- Harry Potter er skáldsagnapersóna í samnefndum bókum eftir breska rithöfundinn J.K. Rowling. Hann er galdradrengur sem gengur í Hogwartsskóla [...]
og
- Bjartur í Sumarhúsum er skáldsagnapersóna í Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness. Bjartur var þver og sjálfstæður bóndi [...]
Önnur tungumál
breytaNotkun erlendra orða ætti að vera í lágmarki. Þau ætti aldrei að nota þannig að lesandi sem skilur íslensku en ekki erlenda orðið skilji ekki greinina.