Wikipedia:Breytingadeilur

(Endurbeint frá Wikipedia:Breytingastríð)

Breytingadeilur (einnig breytingastríð) eiga sér stað þegar einstakir ritstjórar eða hópur ritstjóra taka breytingar hvers annars á greinum eða síðum stanslaust til baka. Ritstjórar sem lenda í ágreiningi ættu að ná samkomulagi (t.d. á spjallsíðu viðkomandi síðu) eða leita lausna á deilum frekar en að taka þátt í breytingadeilum. Slík hegðun er talin fjandsamleg og með öllu móti bönnuð.

Breytingadeilur eru ekki mannbætandi, skapa fjandskap milli ritstjóra, gera samkomulag erfiðara og valda ruglingi fyrir lesendur. Notendur sem taka þátt í breytingadeilum tefla á tæpasta vað með hindrunum eða jafnvel banni. Ritstjóri sem ítrekað endurheimtir sína eigin útgáfu er að taka þátt í breytingadeilum, óháð því hvort þessar breytingar séu réttlætanlegar. Að halda því fram að breytingar sínar hafi verið réttar og þar af leiðandi geti ekki verið um breytingadeilu að ræða er ekki gild vörn.

Það er ekki alltaf svart á hvítu hvenær endurheimtingar fara úr böndunum og verða að togstreitu sem krefst annarra lausna. Þótt engin viðurkennd regla sé til er gott að hafa í huga ákveðin viðmið. Eitt af þessum viðmiðum segir í grófum dráttum að þú megir ekki taka aftur breytingu oftar en þrisvar sinnum á einni síðu innan sólarhrings (24 tíma), jafnvel þótt það sé aðeins hluti af breytingunni eða efnið sé mismunandi. Jafnvel að reyna að komast fram hjá þessu viðmiði með því að endurheimta rétt eftir sólarhring er talið breytingadeila. Það eru undantekningar, t.d. ef um er að ræða augljóst skemmdarverk eða brot á reglum um persónuvernd lifandi einstaklinga. Þetta viðmið getur verið gagnlegt hættumerki en það er ekki eina skilgreiningin á breytingadeilu. Þú getur verið þátttakandi í breytingadeilu án þess að brjóta þetta viðmið beinlínis, eða jafnvel án þess að nálgast það.