Vogar (færeyska: Vágar), stundum kallaðir Vogey (færeyska: Vágoy), eru þriðja stærsta eyjan í Færeyjum. Eyjan liggur sunnan og vestan við Straumey og er næstvestust allra eyjanna, en aðeins Mykines er vestar. Íbúar Voga voru 3.367 árið 2020. Á eynni er eini flugvöllur Færeyja, Vogaflugvöllur.

Kort af Vogum.
Staðsetning Voga í Færeyjum.

Hæsta fjallið á eynni er Árnafjall (722 m). Á Vogum eru tvö stærstu stöðuvötn Færeyja, Saurvogsvatn (eða Leitisvatn) og Fjallavatn. Lögun Voga er oft sögð minna á hundshaus og er þá Fjallavatn auga hundsins en Saurvogsfjörður kjafturinn. Fjöldi hólma og skerja er í kringum eyna.

Byggðir

breyta

Byggðirnar á eynni eru Saurvogur, Bær, Gásadalur, Miðvogur, Sandavogur og Vatnseyrar, en síðastnefnda byggðin hefur nokkra sérstöðu því hún er sú eina í öllum Færeyjum sem ekki er við sjó, heldur á strönd Saurvogsvatns. Þarna var raunar engin byggð fyrr en 1921, þegar þrjár fjölskyldur settust þar að.

Bær og Gásadalur eru á vesturströnd eyjarinnar og var Gásadalur án vegasambands við umheiminn allt til 2004, en þá voru vígð göng þangað. Tvær aðrar afskekktar byggðir fóru í eyði á síðustu öld, Víkar 1910 og Slættanes 1964. Þær voru báðar á norðvestanverðri eynni og er nú sá hluti hennar allur óbyggður. Svo var raunar einnig áður því þessar byggðir voru báðar stofnaðar á 19. öld.

Í Sandavogi var stórbýlið Steig, sem var gert að lögmannssetri árið 1555 og bjuggu flestir lögmenn Færeyja þar eftir það, allt þar til embættið var lagt niður 1816. Síðasti lögmaðurinn á Steig var Jørgen Frants Hammershaimb og þar fæddist sonur hans, V.U. Hammershaimb, prestur og málfræðingur, sem lagði grunn að færeyska ritmálinu. Minnisvarði um hann er á Steig.

Samgöngur

breyta

Á eynni er eini flugvöllur Færeyja, Vogaflugvöllur og eru Vogar því viðkomustaður flestra sem til Færeyja koma. Völlurinn var lagður af Bretum í síðari heimsstyrjöldinni, en eftir að henni lauk var völlurinn lítið sem ekkert notaður í tuttugu ár. Hann var svo endurnýjaður á sjöunda áratugnum og gerður að alþjóðaflugvelli. Vegna flugvallarins voru Vogar öryggissvæði á heimsstyrjaldarárunum og þurftu íbúar annarra eyja sérstakt leyfi til að fara þangað. Mestallt herlið Breta á eyjunum var staðsett á Vogum, aðallega á Vatnseyrum, og voru íbúar þorpsins fluttir burt á meðan hernámið stóð yfir.

Fyrstu neðansjávargöngin í Færeyjum, Vogagöngin, milli Voga og Straumeyjar, voru opnuð árið 2002. Þau eru um 4900 m löng.

   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.