Venceslaus Ulricus Hammershaimb (25. mars 18198. apríl 1909), oftast nefndur V.U. Hammershaimb eða Venzel Hammershaimb var færeyskur prestur, málvísindamaður og þingmaður sem lagði grundvöllinn að færeysku ritmáli.

V.U. Hammershaimb.

Hann var fæddur á Steig í Sandavági á Vágum, sonur Jørgen Frantz Hammershaimb, síðasta lögmanns Færeyja áður en lögþingið var lagt niður 1816, og konu hans Armgard Marie Engholm. Hammershaimb-ættin var upphaflega frá Slésvík en langafi V.U. Hammershaimb varð fógeti í Færeyjum 1723 og settist þar að og giftist dóttur Samuel Pedersen Lamhauge lögmanns. Einn af þrettán börnum þeirra var V.U. Hammershaimb fógeti, faðir Jørgen Frantz Hammershaimb, lögmanns.

Jørgen Frantz dó þegar sonurinn var á öðru ári. Tólf ára að aldri var Hammershaimb sendur til Kaupmannahafnar í skóla, tók þar stúdentspróf 1839 og lauk guðfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1847. Hann sinnti kennslustörfum í Kaupmannahöfn til 1855 en varð þá sóknarprestur á Norður-Straumey. Árið 1862 varð hann prestur á Austurey og jafnframt prófastur Færeyja frá 1867. Þá flutti hann til Danmerkur og gerðist prestur á Sjálandi. Síðustu árin bjó hann í Kaupmannahöfn og lést þar níræður að aldri. Hammershaimb var konungkjörinn fulltrúi á færeyska Lögþinginu frá 1866 til 1878.

Fræðistörf breyta

Á Kaupmannahafnarárum sínum hóf hann að semja færeyska málfræði og stafsetningarreglur og studdist þar mjög við fornnorrænu og íslensku en hann var góðvinur Jóns Sigurðssonar og vel kunnugur mörgum Íslendingum og var áratugum saman félagi í Hinu íslenska bókmenntafélagi. Ritmál Hammershaimbs miðaðist því við uppruna en var nokkuð fjarlægt færeyskum framburði. Engu að síður varð það fljótt viðmiðið og er grunnurinn að færeysku ritmáli í dag.

Á námsárunum fór hann líka tvær ferðir til Færeyja, ferðaðist um allar eyjarnar og safnaði miklu af kvæðum, sögum, málsháttum, orðatiltækjum, gátum, siðum, leikjum og öðru slíku og skráði niður. Hann skrifaði mikið í ýmis tímarit, einkum um færeysk kvæði og sagnir, svo og um menntamál, sem voru honum mjög hugleikin, en helsta ritverk hans er sýnisbók færeyskra bókmennta, sem út kom 1891.

Heimildir breyta

  • „Dansk biografisk Lexikon, 6. bindi“.
  • „V.U. Hammershaimb. Tíminn, 23. desember 1944“.