Vikarsskeið
Vikarsskeið, (Víkarsskeið) eða Vikrarskeið er talið vera Hrauns- og Hafnarskeið vestan við ós Ölfusár, þ.e. á milli Þorlákshafnar og Ölfusáróss. Nafnið kemur fyrir í nokkrum fornritum en óvissa er um hvernig á að stafsetja það, heimildum ber ekki saman. Reyndar segir í Harðar sögu að Vikarsskeið sé við Þjórsá, en það er talið vera misskilningur söguhöfundar.
Á Vikarsskeiði birtist bergrisinn sem telst einn landvættanna. Í Ólafs sögu Tryggvasonar í Heimskringlu segir um sendiboðann sem Haraldur Gormsson Danakonungur sendi í hvalslíki til Íslands: „Brott fór hann þaðan og suður um Reykjanes og vildi ganga upp á Víkarsskeið. Þar kom í móti honum bergrisi, og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuð hans hæra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum.“
Jötuninn sem í Njáls sögu „stendur með járnstaf í hendi, jafnan við Lómagnúp“ er ekki hinn eiginlegi landvættur, þó að hann sé eflaust sömu ættar.
Á Vikarsskeiði braut Auður djúpúðga eða Unnur djúpúðga skip sitt þegar hún kom til Íslands.
Heimild
breyta- Jakob Benediktsson (útg.): Íslendingabók, Landnámabók, Rvík 1968:139. Íslensk fornrit I.