Vestmannaeyjagöng

tillaga að veggöngum á Suðurlandi

Jarðgöng milli Íslands og Vestmannaeyja eru hugsanleg undirsjávargöng milli meginlands Íslands og Heimaeyjar í Vestmannaeyjum sem verða rúmlega 18 km að lengd. Gert er ráð fyrir göngunum í aðalskipulagi Vestmannaeyjabæjar.

Vestmannaeyjagöng
SveitarfélögVestmannaeyjabær og Rangárþing eystra
Staðaþörf á rannsóknum
Lengd jarðganga18 km
Lengd botnganga13,8 km
Kostnaðuróþekktur
Siglingalína (gul), áætluð leið jarðganga 18 km (svört)

Göngin hafa verið til umræðu til margra ára. Ein af fyrstu þingsályktunum um málið má finna frá árinu 1989.[1] Árið 2003 voru stofnuð áhugasamtökin Ægisdyr um vegtengingu milli lands og Eyja. Formaður þeirra er Ingi Sigurðsson.

Í skýrslu sem Vegagerðin lét gera og kom út árið 2006 [2]. Er skýrt tekið fram í niðurstöðum hennar að frekari rannsókna sé þörf, til að áætla kostnað við gerð ganganna. Áætlaður kostnaður var 70-100 milljarða króna, þar sem þeir töldu öryggisins vegna, nauðsynlegt að leggja tvenn göng fyrir aðskilna umferð. Í skýrslunni var áætlað að göngin yrðu fyrir u.þ.b. 1.000 bíla umferð á dag, yrðu þriðju stærstu göng í heimi af þessari gerð og færu í gegnum mjög virkt gossvæði.[3] Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur, hefur síðar bent á að staðsetning Vestmannaeyjaganga yrði fyrir utan megin virkni goskerfis Vestmannaeyja og að önnur goskerfi á Suðurlandi séu ekki samhangandi í einu stærðarinnar eldgosakerfi.[4]

28. júlí 2006 lét Ægisdyr birta skýrslu gerða af Multiconsult ráðgjafafyrirtækinu sem gerði ráð fyrir því að Vestmannaeyjagöng myndu kosta u.þ.b. 18 milljarða króna.[5]

Þann 27. júlí 2007 ákvað ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að setja ekki fjármuni til rannsókna á jarðlögum vegna jarðganga milli Kross og Heimaeyjar. Rannsóknin var talin kosta á bilinu 115 til 275 milljónir króna.[6] Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens hafði þá þremur dögum áður gefið út kostnaðarmat á bilinu 50-80 milljarða króna. Þeir töldu hins vegar þurfa ítarlegri gögn í málið svo unnt væri að kostnaðarmeta framkvæmdina með réttu. Því var hafnað af þáverandi ríkisstjórn. [7]

Árið 2017 lögðu þingmenn Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi fram þingsályktunartillögu að fela ráðherra að skipa starfshóp til að gera ítarlega fýsileikakönnun á gerð ganga milli Heimaeyjar og Kross í Landeyjum.[8][9]

Árið 2018 voru Vestmannaeyjagöng sett inní aðalskipulag sveitarfélags Vestmannaeyjabæjar.

Kostnaðar- og ábatagreining á jarðgöngum milli lands og Vestmannaeyja, sem gerð var af Víði Þorvarðarsyni hagfræðing undir leiðsögn Þórólfs Geirs Matthíassonar hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands árið 2020, leiddi í ljós að þjóðhagslegur ábati af Vestmannaeyjagöngum nemi 95,4 milljörðum króna.

Botngöng

breyta

Möguleikinn á botngöngum var skoðaður árið 1998. Athugun leiddi í ljós að mesta dýpi er aðeins um 60m þar sem mest lætur og yrði lengd þeirra einungis 13,8 km. Hins vegar voru þau strax slegin út af borðinu þar sem þau þóttu heldur kostnaðarsöm í framkvæmd á þeim tíma.[10] Tækni við gerð botnganga er hins vegar sífellt að aukast og má til að nefna gerð Fehmarn Belt botnganganna sem hófst árið 2020, þau munu liggja milli Danmerkur og Þýskalands og verða 18 km löng.

Tilvísanir og heimildir

breyta