Vegir liggja til allra átta

„Vegir liggja til allra átta“ (upphaflega „79 af stöðinni“) er íslenskt dægurlag eftir Sigfús Halldórsson við texta eftir Indriða G. Þorsteinsson. Lagið var samið fyrir kvikmyndina 79 af stöðinni eftir samnefndri skáldsögu Indriða sem kom út 1955 og hafði notið mikilla vinsælda. Guðlaugur Rósinkranz Þjóðleikhússtjóri tók fljótlega að skrifa kvikmyndahandrit eftir sögunni og íslenska fyrirtækið Edda Film stóð að gerð myndarinnar sem var leikstýrt af danska leikstjóranum Erik Balling. Guðlaugur fékk Sigfús og Indriða til að semja lagið og textann fyrir myndina. Samkvæmt Indriða hafði Guðlaugur fengið þá hugmynd að myndin yrði að hafa eftirminnilegt lag, líkt og myndirnar Casablanca og Brúin yfir Kwai. Jón Sigurðsson tónlistarmaður útsetti lagið og í einu atriði kvikmyndarinnar sést Elly Vilhjálms syngja það á balli á Hótel Borg. Í laginu er langt gítarmillispil sem Ólafur Gaukur Þórhallsson lék og sumir segja vera fyrsta gítarsóló íslenskrar tónlistarsögu.

Lagið varð umsvifalaust gríðarlega vinsælt. Það kom út á smáskífu ásamt laginu „Lítill fugl“ 1963, ári eftir að kvikmyndin var frumsýnd, undir heitinu „79 af stöðinni“, en í síðari útgáfum var nafninu breytt í „Vegir liggja til allra átta“. Þetta var önnur plata Ellyjar.

Heimildir

breyta
  • Indriði G. Þorsteinsson. „Sigfús Halldórsson (minningargrein)“. Morgunblaðið, 9. janúar, 1997. Sótt 7. febrúar 2008.
  • Páll Ásgeir Ásgeirsson (2007). „Stefnumót Indriða og Sigfúsar“. Heimur - Útgáfufyrirtækið. Sótt 7. febrúar 2008.