Valgarður á Velli

Valgarður á Velli var eitt af skáldum Haralds harðráða. Um ævi hans og uppruna er ekkert vitað en fræðimenn hafa giskað á að hann hafi verið sonur eða frændi Marðar Valgarðssonar á Velli sem kemur við Njáls sögu. Valgarður er í Skáldatali talinn til skálda Haralds harðráða en ekki annarra konunga eða höfðingja.

Á þessari blaðsíðu í Fríssbók Heimskringlu eru vísur Valgarðs um hernað Haralds harðráða í Danmörku.

Í fornum heimildum eru 11 vísur, heilar eða hálfar, eignaðar Valgarði. Þrjár eru í Skáldskaparmálum þar sem þær eru notaðar til að sýna notkun á tilteknum heitum - hrönn, logi og brími. Í einni þeirra segir að „eydd varð ... of síðir Sikiley“ og mun þar vísað til herfarar Haralds harðráða þar um slóðir.

Í konungasögum eru 8 vísur varðveittar. Ein er aðeins í Fagurskinnu og er þar greint frá að Haraldur hafi tekið suma væringja Miklagarðskeisara af lífi. Þar er um að ræða uppreisn árið 1042 gegn Mikael fimmta. Aðrar vísur eru varðveittar í fleiri heimildum, þar á meðal Heimskringlu og Morkinskinnu og greina meðal annars frá ferðum Haralds úr Garðaríki til Svíþjóðar og frá Svíþjóð til Danmerkur til fundar við Magnús góða, bróðurson hans.

Frægustu verk Valgarðs eru vísur sem lýsa hernaði Haralds í Danmörku u.þ.b. 1044–1045:

Brann í bœ fyr sunnan
bjartr eldr Hróiskeldu;
rǫnn lét ræsir nenninn
reykvell ofan fella.
Lǫ́gu landsmenn gnógir,
ló hel sumum frelsi;
drósk harmvesalt hýski
hljótt til skógs á flótta.
Dvǫlðu daprt of skilða,
drifu, þeirs eptir lifðu,
ferð, en fengin urðu
fǫgr sprund, Danir undan.
Láss helt líki drósar,
leið fyr yðr til skeiða,
bitu fíkula fjǫtrar,
fljóð mart, hǫrund bjarta.

Endursögn í útgáfu Ármanns Jakobssonar og Þórðar Inga Guðjónssonar: „Bjartur eldur logaði í byggð fyrir sunnan Hróarskeldu. Hinn ötuli konungur lét eld eyða húsum. Margir landsmenn lágu fallnir. Dauði sveik suma um undankomu. Harmþrungið fólk dróst fámált til skógar á flótta. (Þeir) töfðu hópinn, sem tvístraðist hörmulega. Danir, þeir sem eftir lifðu, flýðu undan, en fagrar konur voru teknar. Meyjarnar voru læstar í fjötra. Margar konur gengu á undan yður til skipa. Fjötrar nístu gráðuglega ljóst hörundið.“ (Morkinskinna I 2011:121–122.)

Um þessar vísur segir Vésteinn Ólason (2006:225): „Ekki er hægt að vera fullviss um hvort er hér ríkara fyrirlitning eða samúð með hinum sigruðu.“ Finnur Jónsson (1894:638) taldi Valgarð fært og hugmyndaríkt skáld og tiltók að vísur hans væru ekki þurrar frásagnir heldur myndrænar lýsingar og svipmyndir.

Heimildir

breyta
  • Finnur Jónsson. 1894. Den oldnorske og oldislandske litteraturs historie. Kaupmannahöfn: Gad.
  • Morkinskinna I. 2011. Útg. Ármann jakobsson og Þórður Ingi Guðjónsson. Íslenzk fornrit XXIII. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag.
  • Vésteinn Ólason. 2006. Dróttkvæði. Íslensk bókmenntasaga I, 191-264. Reykjavík: Mál og menning.