Heiti og kenningar eru notuð til að umorða það sem maður vill segja, vanalega til þess að beygja það undir bragfræðilegar reglur í skáldskap (rím, hrynjandi eða ljóðstafi), en einnig til að komast hjá stagli, gera málið torskilið eða sýna færni skáldsins í að beita heitum og kenningum.

Það sem kallast heiti í bragfræði er það sem oftast kallast samheiti, einfaldlega orð sem þýða það sama (maður = halur; sverð = hjör; kona = snót). Einnig er til að menn noti hluta fyrir heild (skip = kjölur; hestur = faxi; skjöldur = rönd; hús = gafl), eða þá að það sem eitthvað gerir yfirfærist á gerandann (konungur = ríkir, stillir; hermaður = myrðir).

Kenningar

breyta

Kenning er samsetning tveggja eða fleiri orða, þar sem stofni eru veittar einkunnir sem skýra hvað við er átt.

Algeng aðferð er að vísa til goðafræði eða annarra sagna, einkum úr Skáldskaparmálum Snorra-Eddu eða fornaldarsögum Norðurlanda. Þá er gull til dæmis kennt sem „Kraka sáð“ -- sáðkorn kennt við Hrólf konung kraka, og vísað til þess þegar Hrólfi var eitt sinn veitt eftirför en hann fór í skjóðu sína, tók hnefafylli af gulli og stráði aftur fyrir sig. Eftirreiðarmennirnir hættu þá eftirförinni til að tína upp gullið, en Hrólfur kraki slapp. Það sem Kraki sáði er þá gull. Eins getur gull verið kennt sem „eldur Rínar“ og er þá vísað í Völsunga sögu, þegar fjársjóður var falinn á árbotni fljótsins Rínar. Það sem glóir í Rín er þá gull.

Önnur algeng aðferð er að bregða upp myndlíkingu. Þá er til dæmis „hjörva viður“ tré sem hefur sverð í stað greina, það er að segja hermaður, það er að segja karlmaður. „Bryggja bauga“ er eitthvað sem baugar (skartgripir) liggja á, það er að segja kona. „Hófa hreinn“ er hreindýrstarfur sem er með hófa, það er að segja hestur.

   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.