Vale of Leven F.C.
Vale of Leven Football Club er skoskt knattspyrnufélag frá bænum Alexandria í Vestur-Dunbartonshire. Það var stofnað árið 1872, lagt niður árið 1929 en endurstofnað tíu árum síðar. Það var í hópi öflugustu liða á upphafsárum skosku knattspyrnunnar, varð þrívegis bikarmeistari og komst fjórum sinnum að auki í úrslitaleik keppninnar ár árunum 1877-90.
Saga
breytaNágrannaliðin Vale of Leven og Renton voru stórveldi á knattspyrnusviðinu á seinni hluta 19. aldar. Vale of Leven varð bikarmeistari þrjú ár í röð 1877-9. Árið 1878 hélt liðið suður fyrir landamærinn og sigraði ensku bikarmeistarana The Wanderers á Kennington Oval þrátt fyrir að heimamenn nytu góðs af því að leikið var eftir enskum reglum sem voru lítillega frábrugðnar þeim skosku. Auk knattspyrnu lagði félagið stund á fleiri íþróttir og vann t.a.m.meistaratitil í knattleiknum shinty árið 1879.
Þegar skosku deildarkeppninni var komið á laggirnar árið 1890 var Vale of Leven meðal stofnfélaga. Þegar þar var komið sögu stóð liðið hins vegar í skugganum af ríkari félögum frá Glasgow og grannliðinu Dumbarton. Á öðru keppnisárinu endaði Vale of Leven á botninum og tókst ekki að vinna leik. Ekkert annað lið náði þeim vafasama árangri fyrr en Brechin gerði slíkt hið sama árið 2018. Eftir þessa útreið ákvað Vale of Leven að draga sig út deildarkeppninni.
Árið 1905 hóf félagið keppni í nýstækkaðri 2. deild: Þar var liðið lengst af í basli og féll árið 1924 niður í hina skammlífu þriðju deild sem lögð var niður skömmu síðar. Við tók stutt skeið í héraðsdeildum uns félagið varð gjaldþrota árið 1929 og hvarf úr bókum skoska knattspyrnusambandsins.
Metnaðarfull tilraun var gerð til endurreisnar félagsins árið 1939 en frestun knattspyrnumóta vegna seinni heimsstyrjaldarinnar settu strik í reikninginn. Frá 2020 hefur Vale of Leven keppt í Vestur-Skotlandsdeildinni, sem samsvarar sjöunda efsta þrepi skoska fótboltapíramídans.
Titlar
breyta- Skoski bikarinn (3): 1876-77, 1877-78, 1878-79