Dumbarton F.C.
Dumbarton Football Club er knattspyrnufélag frá samnefndum bæ í vestanverðu Skotlandi. Félagið var stofnað árið 1872 og var eitt hið sigursælasta á nítjándu öld. Dumbarton varð á þeim árum tvívegis Skotlandsmeistari og einu sinni bikarmeistari. Í seinni tíð hefur félagið verið langdvölum í neðri deildunum og er langt frá því að ná fyrri styrk.
Saga
breytaÁrið 1872 horfði hópur ungra manna frá Dumbarton á knattspyrnuleik milli stórliðanna Queen's Park og Vale of Leven og ákváðu í kjölfarið að stofna knattspyrnulið. Árið eftir varð félagið meðlimur í Skoska knattspyrnusambandinu og á skömmum tíma varð það eitt af öflugustu liðum í Vestur-Skotlandi.
Á árunum 1881 til 1897 komst Dumbarton sex sinnum í úrslitaleik bikarkeppninnar, þar af varð liðið einu sinni bikarmeistari eftir sigur á Vale of Leven árið 1883. Í kjölfar þess sigurs mætti liðið ensku bikarmeisturunum í Blackburn Rovers og sigruðu þá 6:1.
Árið 1889 sameinaðist Dumbarton nágrannaliðinu Dumbarton Athletic en nafn og búningur félagsins breyttust ekki. Árið eftir varð Dumbarton eitt af stofnfélögum skosku deildarkeppninnar. Liðið endaði í toppsæti með jafnmörg stig og Rangers. Eftir að úrslitaleik liðanna lauk með jafntefli var ákveðið að þau skiptu með sér meistaratigninni. Árið eftir urðu Dumbarton óskoraðir meistarar, tveimur stigum á undan Celtic.
Atvinnumennska var heimiluð í skoska boltanum árið 1893. Dumbarton var þó í hópi þeirra félaga sem ákvað að halda tryggð við áhugamennskuhugsjónina. Sú ákvörðun reyndist dýrkeypt þar sem flestir bestu leikmennirnir gengu til liðs við önnur félög. Vorin 1895 og 1896 hafnaði liðið í neðsta sæti og þurfti að leita endurkjörs hjá öðrum aðildarfélögum. Í seinna skiptið var félagið fellt niður um deild og eftir að enda í neðsta sæti annarar deildar árið 1897 drógu stjórnendur liðsins það úr keppni.
Eftir nokkurra ára eyðimerkurgöngu utan deilda fékk Dumbarton að nýju þátttökurétt í deildarkeppninni árið 1906. Dumbarton náði nokkrum árum í efstu deild í kringum fyrri heimsstyrjöldina en var oftast um miðja næstefstu deild. Við tóku tíðindalitlir áratugir, þar sem félagið átti oft í talsverðum rekstrarvanda.
Árið 1970 mátti litlu muna að Dumbarton kæmist í úrslit deildarbikarsins þar sem liðið tapaði 4:3 í framlengdum undanúrslitaleik gegn Celtic. Tveimur árum síðar varð liðið meistari í annari deild og komst þar með í fyrsta sinn í áratugi í hóp þeirra bestu. Dvölin þar varð ekki löng. Deildarkeppnin var endurskoðuð árið 1975 og úrvalsdeild sett á laggirnar með færri liðum. Dumbarton færðist niður um deild á nýjan leik og við tók erfiður tími, þar sem helsta ljósið í myrkrinu var undanúrslitaleikur í bikarkeppninni árið 1976.
Dumbarton lék í síðasta sinn í efstu deild leiktíðina 1984-85. Eftir góða byrjun missti liðið allan vind úr seglunum í lokaumferðunum og fallið varð ekki umflúið. Upp frá því hefur Dumbarton ekki komist nærri því að leika meðal þeirra bestu. Leiktíðina 2021-22 er félagið í þriðju efstu deild.
Titlar
breyta- Úrvalsdeild (2): 1890–91, 1891–92
- Skoski bikarinn (1): 1882-83