Víðidalur (Skagafirði)

Víðidalur á Staðarfjöllum er eyðidalur á sýslumörkum Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu og er hluti af Staðarfjöllum, afréttarlandi sem tilheyrði áður Reynistað að mestu. Dalurinn liggur sem næst frá norðri til suðurs og er rúmlega 15 km langur. Hann er að mestu leyti í 250-320 metra hæð yfir sjávarmáli, nokkuð breiður og dalbotninn sumstaðar vel gróinn.

Á miðöldum virðist hafa verið nokkur byggð í Víðidal og á einum bænum, Helgastöðum, var kirkja eða að minnsta kosti bænhús. Engar skjalfestar heimildir eru þó til um þessa byggð fyrr en í bréfi frá Birni Jónssyni fræðimanni á Skarðsá frá miðri 17. öld og ekki er víst hvenær byggðin lagðist í eyði; ýmist er sagt að það hafi verið í Svarta dauða eða plágunni síðari.

Á síðari öldum var aðeins einn bær í byggð í Víðidal, Gvendarstaðir. Þeir voru nyrst í dalnum og fóru í eyði 1898. Af sumum hinna bæjanna sjást enn einhverjar rústir eða tún en þær eru sagðar hafa verið: Þverá, Svartagil, Rauðagil, Þúfnavellir, Helgastaðir, Hrafnagil og hugsanlega Atlastaðir.

Á Þúfnavöllum í Víðidal er nú skáli Ferðafélags Skagfirðinga.

Heimildir

breyta
  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar II. bindi. Staðarhreppur - Seyluhreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2001. ISBN 978-9979-861-10-2