Staðarfjöll er heiti á afréttarlandi í vestanverðum Skagafirði, milli Sæmundarhlíðar í austri og Laxárdalsfjalla í vestri. Meginhluti Staðarfjalla tilheyrði áður Reynistað og er svæðið kennt við hann og stundum kallað Reynistaðarfjöll. Það er nú hluti af Reynistaðarafrétt og er í eigu nokkurra hreppa í vestanverðum Skagafirði.

Vestast í Staðarfjöllum er Víðidalur, um 15 kílómtra langur og liggur að mestu frá norðri til suðurs. Norðaustur úr honum er Hryggjadalur og telst fremsti hluti hans til Staðarfjalla. Austan við Víðidal er Háheiði, mikið fjallaflæmi, um 10 km langt, og austan hennar eru minni dalir, Rangali og Miðdalur nyrst, svo Vatnadalur og Valbrandsdalur en syðst Þröngidalur. Þar austur af eru Sæmundarhlíðarfjöll og norður af þeim Staðaröxl, fjallið upp af Reynistað.

Í Víðidal virðist hafa verið töluverð byggð á miðöldum en hún er sögð hafa farið í eyði, annaðhvort í Svarta dauða 1402 eða plágunni síðari 1495-1496 og eftir það voru oftast aðeins einn eða tveir bæir byggðir þar. Hryggir á Staðarfjöllum, sem voru í Hryggjadal, fóru í eyði 1913, og Gvendarstaðir, ysti og lengst af eini bær í Víðidal, fór í eyði 1898.

Heimildir

breyta
  • Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar II. bindi. Staðarhreppur - Seyluhreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2001. ISBN 978-9979-861-10-2