Undir Svörtufjöllum
Undir Svörtufjöllum (franska: Les Collines noires) eftir Morris (Maurice de Bevere) og René Goscinny er 21. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1963, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1961-62. Bókin hefur ekki komið út á íslensku.
Söguþráður
breytaBandaríkjaþing ákveður að gera út leiðangur vestur yfir Svörtufjöll til Wyoming til þess að kanna aðstæður til landnáms hvítra landnema á svæðinu. Lukku Láki er fenginn til þess að leiða hópinn sem samanstendur af nokkrum utangátta vísindamönnum frá Evrópu. Þingmaðurinn Orwell Stormwind, sem stundað hefur það að selja Cheyenne-indíánum í Svörtufjöllum byssur og áfengi, er lítt hrifinn af þessum áformum og fær undirtyllu sína, Bull Bullet, til að elta hópinn og koma í veg fyrir að leiðangurinn komist á áfangastað. Eftir viðburðaríkt ferðalag með lest frá Washington til Des Moines í Iowa og póstvagni frá Des Moines til Omaha í Nebraska leggja ferðalangarnir af stað á hestum og múlösnum upp í Svörtufjöll. Þegar tilraunir Bull Bullets til að koma Lukku Láka og félögum hans fyrir kattarnef mistakast hver á fætur annarri leitar hann liðsinnis indíánanna í fjöllunum og lofar þeim ómældum birgðum af eldvatni fyrir að ráðast á hópinn.
Fróðleiksmolar
breyta- Sagan af ferðalagi Lukku Láka til Svörtufjalla á mörkum Suður-Dakóta og Wyoming er innblásin af könnunarleiðangri George Armstrong Custer hershöfðingja með herlið sitt á sömu slóðir árið 1874. Tilgangur leiðangursins var m.a. að kanna hvort gull væri að finna á svæðinu. Gull fannst og úr varð mikið gullæði hvítra landnema í Dakóta. Leiddi ásókn gullleitarmanna til stríðsátaka við indíána á svæðinu sem áttu eftir að kosta Custer hershöfðingja lífið í orustunni við Little Big Horn árið 1876. Þótt leiðangur Lukku Láka og félaga verði til góðs fyrir indíánanna í sögunni með friðarsamningum við ríkisstjórnina markaði leiðangur Custers hershöfðingja í reynd upphafið að endalokum indíána í Svörtufjöllum.
- Í bókinni þarf Lukku Láki að glíma við Cheyenne-indíána. Indíánar af þeim þjóðflokki höfðu þó yfirgefið Svörtufjöll löngu áður en sagan gerist. Á seinni hluta nítjándu aldar réðu Síuxa-indíánar lögum og lofum á svæðinu og undirrituðu samninga við ríkisstjórnina árið 1868 um yfirráð yfir Svörtufjöllum og svæðum í Suður-Dakóta, Wyoming og Montana.
- Samskipti vísindamannanna fjögurra í bókinni minna mjög á samskipti seiðkarlanna á seiðkarlaráðstefnunni í Ástríksbókinni Ástríki og Gotunum eftir Goscinny sem kom út sama ár.