Umsátrið um La Rochelle
Umsátrið um La Rochelle var atburður í Húgenottauppreisninni og markar hátind átakanna milli mótmælenda og kaþólikka í Frakklandi. Umsátrinu lauk með algjörum sigri konungsins, Loðvíks 13., yfir húgenottum í La Rochelle þrátt fyrir stuðning Englendinga við þá síðarnefndu.
Liðsöfnun konungs við La Rochelle hófst í ágúst 1627 og 10. september var fyrstu fallbyssuskotunum hleypt af. Hermenn í umsátursliðinu voru um 30.000 en íbúar borgarinnar (sem var þá önnur eða þriðja stærsta borg Frakklands) um 27.000. Borgin gafst upp eftir fjórtán mánaða umsátur 28. október 1628.