Twistkvöld með hljómsveit Svavars Gests

Twistkvöld með hljómsveit Svavars Gests er 45-snúninga hljómplata gefin út af Íslenzkum tónum árið 1962. Á henni syngja Ragnar Bjarnason og Helena Eyjólfsdóttir sex twist-lög með hljómsveit Svavars Gests. Lögin útsetti Magnús Ingimarsson. Finnur Eydal spilar á baritónsaxofón. Platan er hljóðrituð í mono. Upptaka: Ríkisútvarpið. Umslag: Amatörverslunin ljósmyndastofa. Pressun: AS Nera í Osló.

Twistkvöld með hljómsveit Svavars Gests
EXP-IM 96-A.jpg
EXP-IM 96-B.jpg
Bakhlið
EXP-IM 96
FlytjandiHljómsveit Svavars Gests, Ragnar Bjarnason, Helena Eyjólfsdóttir, Finnur Eydal
Gefin út1962
StefnaDægurlög
ÚtgefandiÍslenzkir tónar

LagalistiBreyta

  1. The peppermint twist - Lag og texti: Dee, Glover
  2. Twistin’ at the hop - Lag og texti: Allan, Tyler
  3. You must have been a beautiful baby - Lag og texti: Warren, Mercer -  Hljóðdæmi (uppl.)
  4. The twistin’ postman - Lag og texti: Bateman, Holland, Stevenson
  5. Twist her - Lag og texti: Bill Black
  6. Everybodys twistin’ down in Mexico - Lag og texti: Killen, Kennedy


Tilurð plötunnarBreyta

Í blaðagrein í Vikunni árið 1962 segir Svavar Gests frá tilurð plötunnar:[1]

 

Nýlega er komin á markaðinn íslenzk hljómplata með sex danslögum, sem öll hafa á sér twist-einkenni. Þar sem plata þessi hefur orðið til með all sögulegum hætti langar mig til að segja ykkur frá því.

Siðast i febrúar lék hljómsveitin i útvarpinu dansmúsík í hálftíma og var eingöngu um twistlög að ræða. Strax daginn eftir fór Tage Ammendrup forstjóri hljómplötufyrirtækisins Íslenzkir tónar, þess á leit við okkur í hljómsveitinni, að við spiluðum sex þessara laga inn á plötu, sem gefin yrði út erlendis auk þess sem nokkur eintök yrðu sett á markað hér á landi. Við færðumst undan þvi vegna þess, að í fyrsta lagi voru lögin nokkuð farin að láta á sjá og í öðru lagi máttum við alls ekki vera að því að fara niður í útvarp aftur og taka upp lögin til útgáfu á hljómplötu. Ef vel á að vanda til verksins tekur minnst tvær stundir að koma hverju lagi inn á plötu og hefði þetta tekið okkur þrjá heila eftirmiðdaga, en þann tíma höfðum við ekki þvi við vorum sem óðast að æfa og undirbúa hjómleika okkar sem fara áttu af stað í Austurbæjarbíói nokkru síðar.

Þá fór Tage fram á það, að fá að nota hinar sömu upptöku og notuð var í þessum danslagaþætti. Engum leizt á það, því slíkar upptökur eru aldrei ætlaðar til plötuútgáfu. Í hálftíma danslagaþætti fer mjög mörg feilnótan með, sem menn vildu síðan ekki fá inn á hljómplötu. Nú virtist allt komið í strand. Tage vildi gefa út hljómplötuna en við ekki spila inn aftur. Kom þá fram sú tillaga að nota þessa sömu upptöku en setja inn á hana klið og lófaklapp eins og hún væri tekin upp á dansleik. Var nú leitað til útvarpsins á nýjan leik og þeir sáu um það sem eftir var. Þeir spiluðu upptökuna og um leið spiluðu þeir hljómplötu sem þeir eiga þar sem allt var á iði, fólk að tala saman, þjónar að brjóta diska og síðan var spiluð inn á segulbandið enn önnur plata, þar sem bara var lófaklapp og var það sett á eftir hverju lagi.

Nú er platan komin á markaðinn og þegar þetta birtist á prenti hefur hún líklega verið leikin nokkrum sinnum í útvarpinu, því eins og fyrr greinir þá fóru nokkur eintök á innanlandsmarkað, en platan verður fyrst og fremst gefin út erlendis og sjá Íslenzkir tónar um það. Þegar þetta er ritað þá hefur verið samið um útgáfu í Belgíu og Noregi og líklega fylgir Danmörk og Þýzkaland á eftir og hver veit hvað. Ég efast um að þessi fyrsta plata nái verulegri útbreiðslu erlendis, en þetta er þó byrjunin og það sakar ekki að láta þá vita af því úti í hinum stóra hljómplötuheimi að hér á Íslandi fylgjast menn líka með því sem er að gerast í dansmúsíkmálum.

 

HeimildirBreyta

  1. Vikan, 21.6.1962, bls. 24.