Tulpen uit Istanboel

Tulpen uit Istanboel (Íslenska Túlipanar frá Istanbúl) er ævintýri um Sval og Val eftir hollenska listamanninn Hanco Kolk frá árinu 2017. Sagan var gefin út í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (hollenska Robbedoes door…) en kom einungis út á hollensku öfugt við aðrar bækur sagnaflokksins sem gefnar hafa verið út bæði á frönsku og hollensku. Sagan hefur verið þýdd á þýsku en ekki önnur tungumál.

Söguþráður breyta

Sagan hefst snemma árs 1960 í borginni Rotterdam. Svalur og Valur halda til fundar við Sveppagreifann en honum og þremur félögum hans af sviði vísindanna hafa borist leynileg skilaboð um að prófessor Petrow frá Sovétríkjunum hafi ákveðið að flýja vestur yfir Járntjaldið og hafist nú við á hóteli í Istanbúl.

Einn vísindamannanna í hópnum, Trappist að nafni, er mikill áhugamaður um sögu túlipanans og stingur upp á að slá tvær flugur í einu höggi. Þar sem 400 ár séu liðin frá því að fyrsti túlípanalaukurinn var fluttur frá Tyrklandi til Hollands, mætti minnast atburðarins með því að líkja eftir upprunalegu hestvagnaferðinni með hann og koma um leið Petrow í gegnum Evópu með leynd. Þetta er afráðið og fylgja þeir Svalur og Valur hinum sérlundaða Trappist í ferðina.

Í Istanbúl kemur í ljós að verkefnið er flóknara en ætlað var. Allar leyniþjónustur heimsins hafa sent fulltrúa sína á vettvang. Háskalegastur er þó hinn alræmdi njósnari Ljew Ljow frá KGB. Hann minnir raunar töluvert á James Bond og er mikill kvennabósi. Að auki hefur Ljew Ljow yfir að búa augnlinsum í ýmsum afbrigðum sem geta heillað fólk, dáleitt það eða fengið til að ljóstra upp leyndarmálum.

Svalur og Valur ákveða að yfirgefa borgina í skyndi ásamt ökumanni hestvagnsins, Trappist, Petrow prófessor og konu hans. Á leiðinni reyna leyniþjónustumenn frá mörgum löndum að veita þeim fyrirsát eða egna fyrir þá gildrur. Í ljós kemur að ökumaðurinn er sjálfur á vegum leyniþjónustu Benelúxlandanna.

Félagarnir verða sífellt sannfærðari um að svikari sé í þeirra röðum. Þá grunar Trappist og eyðileggja túlípanalaukinn dýrmæta í misheppnaðri tilraun til að sanna sekt hans. Þá heyra þeir á tal Petrows og konu hans, þar sem Petrow hlær að flónsku þeirra að halda að hann sé frægur vísindamaður. Svalur og Valur sannfærast um að leiðangurinn sé klúður frá upphafi til enda. Þeir komast þó að lokum við illan leik til Rotterdam á fund Sveppagreifans.

Þar kemur misskilningurinn í ljós. Prófessor Petrow reynist vera hin þögla eiginkona en ekki kjaftagleiði naggurinn sem karlremburnar Svalur og Valur höfðu gefið sér að væri vísindamaðurinn. Það verða fagnaðarfundir en þó lýkur ævintýrinu með einum lokabardaga þar sem Ljew Ljow reynir að dáleiða prófessor Petrow á brott með sér en Svalur kemur til bjargar.

Fróðleiksmolar breyta

  • Í bókinni eru vísanir til raunverulegra atburða í sögu Hollands. Sagan hefst þegar undirbúningur fyrir blómasýninguna Floriade stendur sem hæst en hún vakti heimsathygli. Í tengslum við hana var útsýnisturninn Euromast reistur og kemur hann talsvert við sögu í lokin.
  • Vísanir í fyrri ævintýri Svals og Vals eru nokkrar í bókinni en flestar almennar. Þannig stingur Sveppagreifinn upp á að frelsa prófessor Petrow með köfunarhylkinu úr Svamlað í söltum sjó. Einn leyniþjónustumaðurinn dulbýr sig með (gúmmígrímum líkt og í bókinni La mauvaise tête og undirokaðir íbúar í ótilgreindu Austur-Evrópulandi sem Svalur og Valur heimsækja minna mjög á Neyðarkall frá Bretzelborg.
  • Hanco Kolk er margverðlaunaður hollenskur myndasöguhöfundur. Hann er kunnastur fyrir stakar skopteikningar og styttri sögur, en hefur einnig sent frá sér myndskreyttar ferðasögur, meðal annars um borgina Istanbúl.
  • Ekkert bendir til að Túlipanar frá Istanbúl komi út á frönsku, þótt sú hafi orðið raunin með Spirou in Berlin sem var upphaflega skrifuð fyrir þýskan markað. Hafa báðar bækurnar þó fengið bestu viðtökur gagnrýnenda. Möguleg ástæða er sú að sögusviðið er lítið gert úr belgískum uppruna söguhetjunnar en hollenskar táknmyndir í öndvegi. Slíkt hefur löngum verið viðkvæmt mál hjá útgáfufyrirtækinu Dupuis.