La mauvaise tête

bók um Sval og Val frá árinu 1957

La Mauvaise tête (íslenska: Glæpsamlegt andlit) er áttunda bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún birtist sem framhaldssaga í teiknimyndablaðinu Sval árið 1954 og kom út á bókarformi árið 1957. Höfundur og teiknari hennar var listamaðurinn Franquin. Bókin hefur enn ekki komið út á íslensku.

Söguþráður

breyta

Valur uppgötvar að brotist hefur verið inn hjá honum, en saknar einskis annars en nokkurra passamynda. Í kjölfarið gerast undarlegir hlutir: skartgripaverslun er rænd í miðborginni og eigandinn kennir Val um verknaðinn. Síðar hrifsar Valur forngrip af þjóðminjasafninu fyrir framan sjónvarpsmyndavélar og stingur af, en þykis svo ekkert kannast við málið. Lögreglan hyggst handsama Val sem leggur á flótta.

Svalur finnur passamyndirnar týndu í húsi nágrannans og uppgötvar að þrjótar hafa notað þær til að útbúa gúmmígrímu með andliti Vals, en hefur þó engar sannanir í höndunum. Svalur og Valur elta slóð þrjótanna, en eru með lögregluna á hælunum. Eltingaleikurinn á sér stað á sama tíma og Frakklandshjólreiðarnar, sem blandast talsvert í söguþráðinn.

Valur er handtekinn en Svalur flýr. Hann uppgötvar að glæpaforinginn er Sammi frændi Vals og tilgangurinn var að hefna fyrir ófarirnar í Burt með harðstjórann! Eftir mikinn eltingarleik sleppa Sammi og vitorðsmaður hans, en Svalur heldur eftir gúmmígrímunni og ránsfengnum. Hann fær þó þungt höfuðhögg og missir minnið. Valur er fyrir rétti og dómur við það að falla, þegar Svalur fær minnið á nýjan leik og nær á síðustu stundu í réttarsalinn með sönnunargögnin sem nægja til að frelsa vin hans.

Stutt tveggja blaðsíðna aukasaga fylgir bókinni, Touchez pas aux rouges-gorges. Þar segir frá útistöðum gormdýrsins við heimiliskött sem hyggst éta nokkra fuglsunga.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Ef frá er talin smásagan í bókarlok, kemur Gormdýrið ekki við sögu í bókinni, þrátt fyrir að endurkoma þess hefði verið boðuð í lok Burt með harðstjórann! Er þetta ásamt La corne de rhinocéros eina sagan þar sem Franquin notaðist ekki við skepnuna eftir að hún var fyrst kynnt til sögunnar.
  • La Mauvaise tête er heilsteyptari saga en fyrri verk Franquins. Í eldri sögum hafði atburðarásin oft farið um víðan völl eftir því sem sögunni vatt fram viku eftir viku. Að þessu sinni hélt Franquin sig hins vegar að mestu við handrit sem samið var fyrirfram.
  • Bókin er í miklum metum hjá unnendum sígildra Svals og Vals-bóka og hefur oft ratað í toppsætin á listum yfir bestu bækurnar að mati aðdáenda.