Spirou à Berlin, (þýs. Spirou in Berlin), (Svalur í Berlín) er fjórtánda bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom upphaflega út í Þýskalandi árið 2018 á vegum forlagsins Carlsen en vegna vinsælda hennar ákvað Dupuis-forlagið að gefa hana út á frönsku ári síðar. Höfundur og teiknari sögunnar er listamaðurinn Flix. Bókin hefur ekki verið gefin út á íslensku.

Söguþráður breyta

Árið er 1988. Valur er í örvæntingarfullri leit að fréttum og tendrast því allur upp þegar hann fréttir að Sveppagreifanum hafi verið boðið á alþjóðlega svepparáðstefnu í Berlín í Austur-Þýskalandi. Greifinn sýnir boðinu lítinn áhuga en hverfur skyndilega. Svalur og Valur vita ekki hvort honum hefur verið rænt eða hann séð sig um hönd, en til öryggis ákveða þeir að halda til Berlínar með hraði og nýta til þess farartæki frá Zorglúbb.

Í Austur-Þýskalandi eru leyniþjónustumenn á hverju strái og félagarnir verða viðskila. Valur hittir Mómó, unga konu sem uppgötvar að hann er vestrænn blaðamaður og reynir að vekja áhuga hans á leynilegum upplýsingum. Á meðan uppgötvar Svalur að Sveppagreifanum hefur verið rænt af austur-þýsku leyniþjónustunni. Þeir lenda í eltingarleik við öryggislögregluna þar sem Valur er handsamaður en Svalur kemst undan með hjálp risavaxins órangútans.

Valur rankar við sér sem fangi Samma frænda. Hann reynist kominn til metorða í Austur-Þýskalandi og stendur að baki ráninu á Sveppagreifanum. Hann hefur látið byggja gríðarmikla vél sem á að breyta brúnkolum í demanta. Til þess þarf hann hjálp greifans og hyggst nota Val sem gísl í því skyni.

Á sama tíma vaknar Svalur í undarlegum garði ásamt þremur snjöllum öpum, sem reynast hafa verið þjálfaðir af Nóa (úr sögunni um Apana hans Nóa.) Aparnir eru nú í eigu Mómóar sem er meðlimur í andspyrnuhreyfingunni. Hún hefur uppgötvað að stjórnvöld eru á laun að safna saman járnhlutum fyrir demantagerðarvél Samma frænda og telur að það hljóti að vera skelfilegt vopn. Þau átta sig ekki á því að öryggislögreglan hefur komið staðsetningarbúnaði fyrir á Sval og húsið er umkringt. Við tekur eltingaleikur á gömlum austur-evrópskum bílum.

Svalur og Mómó hitta andspyrnuhreyfinguna að málum, sem fellst á að reyna að hjálpa Sval við að frelsa félaga sinn. Þau bjarga greifanum og Val á síðustu stundu, en óbermið Sammi frændi skýtur þó einn apann með köldu blóði. Hópurinn flýr eftir neðanjarðarræsum Berlínar og tekst að sleppa yfir til vesturhlutans með hjálp metómólsins, hinnar undursamlegu uppfinningar greifans. Mómó verður þó viðskila við félagana á leiðinni og nær ekki að flýja.

Sammi frændi hyggst sýna yfirboðurum sínum hverngi demantavélin virkar, en í sömu andrá sprengir Mómó tækjabúnaðinn í loft upp með fjarstýrðri sprengju. Samma er kennt um eyðilegginguna og hann fær makleg málagjöld. Nokkrum mánuðum síðar fylgjast vinirnir heima í Sveppaborg með sjónvarpsútsendingu frá falli Berlínarmúrsins og sjá sér til mikillar ánægju Mómó bregða fyrir í mannfjöldanum.

Fróðleiksmolar breyta

  • Snemma í sögunni grípur Svalur til þess ráðs að dulbúast sem lyftuvörður til að fara huldu höfði á hóteli. Þar með lýkur hann ævintýrinu í sínum sígilda búningi, bragð sem fleiri höfundar hafa gripið til.
  • Listamaðurinn Flix fæddist í Austur-Þýskalandi og varð aðdáandi Svals og Vals eftir að hafa lesið sögur sem ættingi færði honum yfir járntjald. Sagan hefur að geyma ýmsar bernskuminningar hans um lífið í Austur-Þýskalandi kommúnismans, þar á meðal bregður fyrir kunnum nektarbaðströndum landsmanna.
  • Ekki stóð til að bókin yrði gefin út á frönsku, á sama hátt og sjálfstæðar bækur um æfintýri Svals og Vals hafa komið út í Hollandi fyrir hollenskan markað einvörðungu. Vinsældir sögunnar í Þýskalandi urðu til þess að Dupuis sá sig um hönd.