Tríastímabilið

(Endurbeint frá Trías)

Tríastímabilið er jarðsögulegt tímabil sem nær frá 245 til 202 milljónum ára. Trías er fyrsta tímabil miðlífsaldar. Bæði upphaf og lok trías markast af miklum fjöldaútdauðum. Fjöldaútdauðinn sem batt endi á trías hefur nýlega verið aldursgreindur nákvæmar en fyrr, en eins og með flest jarðsöguleg tímabil eru jarðlögin sem marka upphaf og endi vel skilgreind en raunaldur er ónákvæmur sem svarar nokkrum milljónum ára.

Jörðin eins og hún gæti hafa litið út við upphaf Tríastímabilsins.

Einkennandi jarðlög tríastímabilsins eru rauður sandsteinn og gufunarset sem gefa til kynna hlýtt og þurrt loftslag. Engin ummerki eru um jökulskeið og land var að öllum líkindum hvergi nálægt pólsvæðunum. Risameginlandið Pangea var að rifna í sundur á trías en hafði þó ekki skilist í sundur. Fyrstu sjávarsetlögin í upphafi rifferlisins, sem skildu að New Jersey og Marokkó eru frá síðtrías. Þar sem strandlengja risameginlandsins var takmörkuð eru sjávarsetlög frá trías fremur sjaldgæf, þrátt fyrir að þau séu áberandi í Vestur-Evrópu þar sem tríasjarðlög voru fyrst rannsökuð. Í Norður-Ameríku eru tríassjávarsetlög t.d. takmörkuð við nokkrar opnur í vestri. Því er jarðlagafræði tríastímabilsins að mestu bundin við lífverur sem lifðu í lónum og saltríku umhverfi, t.d. Estheria-krabbadýrin.

Á trías varð mikil aðlögun bæði í sjávarlífi og lífi á landi, en á mörkum perm og trías hafði orðið mesti fjöldaútdauði jarðsögunnar þar sem meirihluti lífvera Jarðarinnar dó út. Fyrstu risaeðlurnar urðu til á þessum tíma. Kórallar af hexacorallia-ætt koma fyrst fram á sjónarsviðið og eins fyrstu flugeðlurnar.