Pangea eða Aljörð (úr grísku πᾶν pan, „allt“ og γῆ ge, „jörð“) var risameginland sem myndaðist seint á fornlífsöld fyrir um 300 milljónum árum og byrjaði að brotna upp á miðlífsöld fyrir um 175 milljónum árum síðan. Hafið í kringum Pangeu er kallað Panþalassa.

Pangea með núverandi heimsálfur merktar inn

Pangea varð til seint á perm -tímabilinu (fyrir 285-250 milljónum ára) við samruna Gondwanalands og Evrameríku. Þetta risameginland náði milli heimskauta og tók yfir alla meginlandsfleka jarðar.

Rökin fyrir tilveru Pangeu eru annars vegar dýralíf, þar sem líkar eða sömu tegundir finnast í heimsálfum sem eru langt frá hverri annarri, og hins vegar hliðstæðir jarðfræðilegir þættir til dæmis í Afríku og Suður-Ameríku.

Pangea gliðnaði í sundur í þremur skrefum. Fyrst klofnaði hún frá Teþyshafi í austri að Kyrrahafi í vestri og myndaði risameginlöndin Lárasíu og Gondvana; síðan brotnaði Gondvana upp í nokkur minni lönd (Afríku, Suður-Ameríku, Indland, Suðurskautslandið og Ástralíu) á árkrítartímabilinu. Þriðja skiptingin varð á Nýlífsöld þegar Lárasía klofnaði og Norður-Ameríka og Grænland skildu sig frá Evrasíu.

Meginástæða þessa klofnings meginlanda er möttulstrókur sem rís undir þeim. Við hann lyftist landið og klofnar loks. Flekahreyfingar bera svo meginlöndin fram og aftur um hnöttinn. Möttulstrókarnir eru líklega sá meginkraftur er flytur til flekana, líkt og ólgandi vatn undir ís sem veldur því að ísjakar færast til.

Heimildir breyta

   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.