Torkil Abraham Hoppe

Torkil Abraham Hoppe (10. apríl 18007. júní 1871), á Íslandi oftast nefndur Þorkell Hoppe, var danskur embættismaður sem var stiftamtmaður á Íslandi 1841-1847.

Torkil Hoppe stiftamtmaður.

Hann var sonur Johanns Christophers Hoppe sjóliðsforingja og kammerherra og konu hans Johanne Magdalene Fjeldsted, dóttur Þorkels Fjeldsted stiftamtmanns í Noregi. Bróðir hans var Peter Fjeldsted Hoppe, sem var stiftamtmaður á Íslandi 1824-1829. Torkil Hoppe varð stúdent úr heimaskóla 1818, lauk lögfræðiprófi 1824 og starfaði í Rentukammerinu frá 1825. Hann kom fyrst til Íslands 1824 með bróður sínum, þegar hann varð stiftamtmaður. Á árunum 1832-1833 var hann sendur til Íslands á vegum Rentukammersins og átti meðal annars að fara á alla verslunarstaði landsins, sem þá voru 24, og tókst að komast á þá alla nema einn. Í skýrslu sinni tók Hoppe fram að hann teldi að Íslendingar þörfnuðust þess án efa meira en nokkur önnur þjóð að eiga samskipti við aðrar þjóðir.

Hann var einnig sendur til Færeyja og Grænlands til upplýsingaöflunar. Í framhaldi af því varð hann ritari nefndar sem skipuð var 1834 til að gera tillögur um breytingar á verslunarlöggjöf Íslands og 1835 var hann skipaður í nefnd sem átti að kanna hvort grundvöllur væri fyrir því að gefa Grænlandsverslun frjálsa. Hann varð kammerjúnkari 1827 og kammerherra 1841.

Þann 21. apríl 1841 var Hoppe skipaður stiftamtmaður á Íslandi og jafnframt amtmaður í Suðuramti. Hann fékk misjafnar umsagnir á Íslandi og þótti eftirbátur Bardenfleths fyrirrennara síns. Bjarni Thorsteinsson segir um hann í ævisögu sinni að hann sé „enginn gáfumaður eða röksemdarmaður í embætti, en ekki vantar það, að hann hefir góðan vilja.“ Árið 1847 fékk hann lausn frá störfum að eigin ósk og var á biðlaunum næsta ár en var svo skipaður amtmaður í Sóreyjaramti. Því embætti gegndi hann til dauðadags 1871.

Fyrri kona hans (gift 1839) var Juliane Vilhelmine Nielsine Christence Benzon en hún dó 1855. Hann giftist aftur 1860 Christine Caroline Platou. Einn sona Hoppe og fyrri konu hans, Johan Christopher Hoppe, sem fæddur var í Reykjavík 1841, varð skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu og síðar amtmaður í Randersamti.

Heimildir

breyta
  • „Dansk biografisk Lexikon, 8. bindi“.
  • „Æfisaga amtmanns Bjarna Thorsteinssonar skráð af honum sjálfum. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 24. árgangur 1903“.