Torfbær

(Endurbeint frá Torfkofa)

Torfbær (stundum einnig talað um torfkofa eða torfhús) er hús sem er reist úr torfi að mestu eða nær öllu leyti. Torfbæir voru með timburgrind (og/eða steinhleðslum), og voru helsta hústegund á Íslandi frá 9. til 19. aldar. Þeir voru þó ekki alltaf burstabæir eins og flestir þeir bæir sem varðveist hafa, slíkir bæir komu ekki til sögunnar fyrr en seint á 18. öld.

Torfbær (burstabær) á Skógum.

Einangrun torfbæjanna

breyta

Torfbæirnir voru býsna vel einangraðir, þ.e. héldu vel heitu innandyra þó kalt væri úti, og þurftu enga upphitun.[1]

Torf var líka töluvert notað sem einangrun milli þilja í timburhúsum á fyrri hluta 20. aldar. Annar kostur við torfbæi var að byggingarefnið var ódýrt og yfirleitt auðvelt að nálgast það. Torftekja var talin til hlunninda fyrr á tíð og var torfið skorið í mýrum. Besta torfið er það sem er að uppistöðu rótarkerfi votlendisplantna og inniheldur lítið sem ekkert af leir og sandi. Torfið var ýmist rist með torfljá eða stungið með skóflu. Torfið var látið þorna áður en hlaðið var úr því, annars var hætta á að það sigi saman og veggir aflöguðust.

Viðhald

breyta
 
Bænhúsið á Núpsstað.
 
Gamall klömbruhlaðinn torfveggur í Laufási við Eyjafjörð.

Torfbæirnir voru samt lélegur húsakostur, og oft þurfti að lappa upp á slíkar byggingar, þar sem torf endist yfirleitt skemur en annað byggingarefni. Í Þjóðólfi, árið 1863, er því lýst hvað gerði það að verkum að skjanna þurfti oft upp á torfbæi og sagt frá því að Íslendingar séu:

... alltaf að byggja sama húsið svoað segja árs árlega; eitt árið hefir vatn hlaupið í einhvern vegginn eða gaflaðið eða frostið klofið og sprengt inn, annað árið er þaktróðið orðið ónýtt og fúið svo að þaktorfið liggur inná viðum, og þarf að rífa þakið og leggja nýtt tróð á húsið, fjórða árið brotinn sperrukjálki eða 1-2 langbönd eða mæniás og þarf enn að rífa þakið fyrir þá sök, fimta árið er ytri þekjan rofin og þarf að tyrfa allt húsið að nýu o.s.frv. Þetta er vanalegi gángurinn í húsbyggíngum hér á landi yfir höfuð að tala.[2]

Torfhleðsla er handverk sem var í þann veginn að glatast og örfáir sem kunnu handbragðið en á síðustu árum hefur áhugi vaknað á að varðveita þá þekkingu og reynslu sem byggðist upp á þúsund árum og hafa meðal annars verið haldin námskeið í torfhleðslu til að kenna fólki að nýta torf til mannvirkjagerðar.

Annað

breyta

Ísland hefur sent inn tillögu að 12 torfhús og 2 torfkirkjur verði settar á Heimsminjaskrá UNESCO yfir menningararf.[3][4][5]

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Þetta slokknaði allt í stríðsgróðanum, Lesbók Morgunblaðsins, 1. júní 1975, bls. 4
  2. Húsakynni og húsabyggingar á Íslandi, Þjóðólfur, 24. janúar 1863, bls. 50
  3. „The Turf House Tradition“. UNESCO World Heritage Centre (enska). Sótt 23. ágúst 2019.
  4. „Torfhúsin njóta virðingar“. www.bbl.is. Sótt 23. ágúst 2019.
  5. „Ísland og heimsminjaskrá UNESCO“. www.mbl.is. Sótt 23. ágúst 2019.

Tenglar

breyta