The Oval

Krikketvöllur reistur árið 1845 í Lundúnum

The Oval eða Kennington Oval er krikketvöllur í Lambeth í Lundúnum sem reistur var árið 1845. Leikvangurinn hefur frá opnun verið heimavöllur Surrey County Cricket Club og verið vettvangur milliríkjakeppna í krikket, auk þess sem lokaviðureign keppnisársins í ensku krikketi fer yfirleitt fram á vellinum. Auk krikketleikja hafa ýmsar sögufrægar viðureignir í knattspyrnu og rúbbí verið leiknar þar.

SagaBreyta

Elstu heimildir um krikketleiki á svæðinu þar sem Kennington Oval reis síðar eru allt frá árinu 1724. Þar sem opinberar aftökur fóru fram á sömu slóðum var keppnisvöllurinn þó fljótlega færður til. Árið 1844 var svæðið orðið að markaðstorgi í eigu hertogans af Kornbretalandi, sem féllst á að leigja það íþróttamönnum undir krikketvöll. Eftir að völlurinn var tyrfður fór fyrsti kappleikurinn fram á árinu 1845.

Meira en 20 þúsund áhorfendur mættu á The Oval árið 1868 til að sjá krikketlið skipað áströlskum frumbyggjum keppa við heimamenn og tólf árum síðar fór fyrsti krikketlandsleikur Englendinga og Ástrala þar fram fyrir milligöngu Charles W. Alcock, knattspyrnu- og krikketfrumkvöðulsins mikla, sem var formaður Surrey-félagsins frá 1872 til 1907.

Auk þess að vera miðlægur í gjörvallri krikketsögu Englands, kom The Oval mjög við sögu hinna vinsælustu boltaíþrótta landsins: rúbbí og knattspyrnu. Á árunum 1872-79 lék enska rúbbílandsliðið sjö leiki við Skota og Íra á vellinum. Voru þetta meðal allra fyrstu alþjóðakeppna í íþróttinni, en fyrsti rúbbílandsleikurinn fór fram árið 1871.

Enska knattspyrnulandsliðið keppti fimmtán sinnum á The Oval frá 1870-1889, tólf sinnum við Skota og þrisvar sinnum við Wales. Fyrstu fimm viðureignirnar við Skota teljast þó ekki fullgildir landsleikir þar sem FIFA lítur svo á að fyrsti opinberi landsleikurinn hafi verið milli Englands og Skotlands í Glasgow árið 1873.

Báðir undanúrslitaleikir og úrslitaleikur ensku bikarkeppninnar fóru fram á The Oval þegar keppnin var haldin í fyrsta sinn veturinn 1871-72. Ef frá er talið árið 1873 hýsti leikvangurinn alla úrslitaleiki keppninnar til ársins 1892. Á þessum tíma óx áhorfendafjöldinn á bikarúrslitaleikjunum hröðum skrefum, frá því að vera rétt um tvöþúsund fyrstu árin upp í rúmlega 30 þúsund áhorfendur.

HeimildirBreyta